Ég ber ábyrgð á því

Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Við vorum ekki nógu grimmir,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson í samtali við mbl.is eftir 0:3-tap Íslands fyrir Bosníu í undankeppni EM karla í fótbolta í Zenica í kvöld.

„Það var mjög mikið sem fór úrskeiðis í kvöld. Helst myndi ég segja að það var svolítið langt á milli okkar og við vorum ekki að ná að vinna hvorki einvígin né annan boltann sem við vildum vinna.

Þar að leiðandi losnar um þá í þessum tveimur mörkum, þá losnar um þá í pressunni hægra megin hjá okkur og þeir komast yfir á vinstri og sækja á okkur hratt. Það er mjög dýrt að fá á sig tvö mörk á útivelli úr hraðaupphlaupum, þannig að það er til dæmis eitthvað sem var ekki nógu gott. 

Mér fannst við ná aðeins jafnvægi í hálfleik þar sem við náðum að stýra og færa aðeins til. En svo klára þeir bara leikinn með þriðja markinu, aftur hægra megin þar sem hann getur trítlað inn og fær frítt skot. Við vorum ekki nógu grimmir,“ sagði Arnar Þór um hvað fór helst úrskeiðis í leiknum. 

Íslenska liðinu gekk afar illa að skapa sér góð færi í leiknum. Arnar segir sitt lið hafa lent í erfiðri stöðu fljótt. „Svo er það. Við eigum í fyrri hálfleik tvær þrjár sóknir sem voru svona allt í lagi en þetta er bara þannig í fótbolta að þegar þú lendir undir eins og við gerðum þá er það erfitt. 

Þegar þeir skora annað markið þá erum að reyna að koma skilaboðum inn á völlinn til þess að ná aðeins betra jafnvægi. Þú þarft í raun og veru að geta unnið þig úr þessum vandræðum sem við vorum í í fyrri hálfleik og það er erfitt að snúa þessu við þegar þú lendir 0:2 undir. 

Seinni hálfleikur var betri en það var líka að sjálfsögðu af því að þeir voru líka að verja þessa forystu sína. Við hefðum bara þurft að vera ákveðnari, spila á hærra tempói, komast hraðar utan á þá og ná betri fyrirgjöfum til að skapa betri færi.“ 

Arnar Þór stillti upp áhugaverðu byrjunarliði en á miðjunni voru tveir kantmenn að upplagi, þeir Jóhann Berg Guðmundsson og Arnór Ingvi Traustason. 

„Jói, getur spilað bæði á miðjunni og út á kanti, við vitum það. Hann er að því hjá Burnley líka. Við byrjuðum með Arnór Ingva sem svona eina varnarsinnaða miðjumanninn en breyttum því síðan mjög fljótt þegar við sáum að þeir voru með tvo sóknarsinnaða miðjumenn og þá var Jói við hliðina á Arnóri. 

Það voru allir að gera sitt besta og leikmennirnir lögðu allt í þetta en stundum ganga hlutirnir ekki upp. Það er bara eins og íþróttin gengur fyrir sig og ég ber bara ábyrgð á því,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is