„Fyrsti bikarinn af mörgum“

Andrea Mist Pálsdóttir gegn Tahnai Lauren Annis í leiknum í …
Andrea Mist Pálsdóttir gegn Tahnai Lauren Annis í leiknum í dag. sport

„Við kunnum að ráða við pressuna“ sagði Andrea Mist Pálsdóttir en hún ásamt liðsfélögum sínum í Stjörnunni urðu deildabikarmeistarar eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í fótbolta gegn Þór/KA í dag.

Eftir venjulegan leiktíma var staðan, 2:2. Þór/KA komst tvisvar sinnum yfir en Stjarnan náði í bæði skiptinn að svara með marki.

„Leikurinn gekk vel og það er mikil liðsheild að koma til baka eftir að lenda tvisvar sinnum undir svo ég er gríðarlega stolt af liðinu í dag. Þór/KA stóðu sig einnig til fyrirmyndar.“

 Stjarnan komst í úrslitaleikinn eftir að hafa leikið gegn Þrótti R. Sá leikur endaði 1:1 og fór í vítaspyrnukeppni svo þetta var annar leikur liðsins í röð í slíkri keppni.

„Við kunnum að ráða við pressuna og höfum farið í vítaspyrnukeppni áður og við kláruðum þetta bara fagmannlega,“ sagði Andrea, sem lék áður með Akureyrarliðinu.

Stjörnustelpur enduðu í 2. sæti í Bestu deild kvenna í fyrra og líta vel út núna stutt fyrir tímabilið. Andrea er bjartsýn fyrir tímabilið. „Þetta er bara fyrsti bikarinn af mörgum,“ sagði hún eftir leikinn í dag.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert