Þór/KA á toppinn eftir sigur á Blikum

Akureyraringar fagna eftir að Hulda Ósk Jónsdóttir kom þeim yfir …
Akureyraringar fagna eftir að Hulda Ósk Jónsdóttir kom þeim yfir gegn Breiðabliki á 28. mínútu í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór/KA vann sterkan sigur á Breiðabliki, 2:0, þegar liðin áttust við í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Boganum á Akureyri í kvöld. Með sigrinum tyllti Þór/KA sér á topp deildarinnar.

Norðankonur byrjuðu af gífurlegum krafti þar sem Sandra María Jessen fékk fyrsta færi leiksins eftir um einnar og hálfrar mínútu leik.

Hulda Ósk Jónsdóttir sendi hana þá eina í gegn með laglegri sendingu, Sandra María náði skoti vinstra megin í vítateignum en Telma Ívarsdóttir í marki Breiðabliks varði vel aftur fyrir.

Sandra María gerði sig aftur líklega á elleftu mínútu þegar Amalía Árnadóttir átti laglega sendingu utan af velli á fjærstöngina þar sem fyrirliðinn náði fínum skalla á nærstöngina en aftur varði Telma.

Eftir tæplega hálftíma leik uppskar Þór/KA loks mark. Sandra María átti þá glæsilega stungusendingu á Huldu Ósk, hún lék með boltann inn í vítateig hægra megin og þrumaði honum svo upp í samskeytin fjær. Þetta var glæsilegt mark.

Eftir að hafa ráðið lögum og lofum allan fyrri hálfleikinn hresstust Blikar ögn undir lok hans. Taylor Ziemer átti til að mynda lúmskt skot af löngu færi á 36. mínútu en það fór naumlega fram hjá.

Katrín Ásbjörnsdóttir fékk svo besta færi Blika á 40. mínútu þegar Andrea Rut Bjarnadóttir fann hana í vítateignum en Katrín náði aðeins að teygja sig í boltann, skotið var því laust og Melissa Lowder í marki Þórs/KA varði.

Strax í næstu sókn komst Sandra María nálægt því að tvöfalda forystu heimakvenna. Hún þrumaði þá að marki við D-bogann eftir að Ziemer hafði misst boltann klaufalega en enn á ný sá Telma við henni og varði aftur fyrir.

Staðan í leikhléi var því 1:0, Þór/KA í vil.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, virtist ekki á eitt sáttur við frammistöðuna í fyrri hálfleik og gerði því tvær skiptingar í hálfleik.

Breytingarnar virtust hressa gestina aðeins við þar sem Karitas Tómasdóttir, annar varamannanna gerði sig í tvígang líklega upp við mark Þórs/KA snemma í síðari hálfleik en í bæði skiptin sá Lowder við henni.

Eftir rúmlega klukkutíma leik átti Agla María Albertsdóttir lúmskt skot fyrir utan teig sem Lowder mátti hafa sig alla við að verja naumlega yfir markið.

Nokkrum mínútum síðar fékk Tahnai Annis gott færi til að tvöfalda forystu Þórs/KA en skot hennar rétt innan vítateigs eftir laglegan undirbúning Huldu Óskar fór naumlega fram hjá markinu.

Varamaðurinn Birta Georgsdóttir kom sér tvisvar í fín færi eftir hornspyrnur en í bæði skiptin komust varnarmenn fyrir skotin á ögurstundu.

Áfram reyndi Breiðablik að knýja fram jöfnunarmark en hafði ekki erindi sem erfiði.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma voru það aftur á móti heimakonur í Þór/KA sem tvöfölduðu forystuna. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir tók þá á rás á miðjunni, sendi Söndru Maríu eina í gegn, hún lagði boltann fyrir sig og lagði hann svo laglega í nærhornið.

Staðan var þá orðin 2:0 og reyndust það lokatölur.

Þór/KA er nú á toppi Bestu deildarinnar með níu stig. Breiðablik er í fjórða sæti með sex stig.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Þór/KA 2:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu +1 Þór/KA kemur boltanum frá að lokum.
mbl.is