Býst við að landsliðsferlinum sé lokið

Pablo Punyed fékk tækifæri með El Salvador eftir að hafa …
Pablo Punyed fékk tækifæri með El Salvador eftir að hafa vakið athygli í íslensku úrvalsdeildinni á sínum tíma. Ljósmynd/Kristín Hallgrimsdóttir

Pablo Punyed, sem er besti leikmaður maímánaðar í Bestu deild karla í fótbolta samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni, býst við því að hann spili ekki fleiri landsleiki fyrir hönd El Salvador.

Pablo fékk tækifæri með landsliðinu árið 2014, eftir að hafa staðið sig vel á Íslandi og orðið Íslandsmeistari með Stjörnunni, og hefur leikið með því í undankeppni stórmóta. Hann á að baki 27 landsleiki og hefur skorað þrjú mörk, eitt þeirra gegn Hondúras í undankeppni HM.

„Ég held að ég sé ekki inni í myndinni,“ sagði Pablo við mbl.is. 

„Ég er ekki búinn að gefa kost á mér frá því að ég var valinn síðast. Ég er að hugsa um svo margt annað núna. Þetta er mjög langt ferðalag fyrir mig að fara í í hverjum einasta landsliðsglugga og við vorum að spila allt of marga leiki þegar leikirnir sem ég spila með Víkingi voru taldir með.

Kjartan Henry Finnbogason og Stefán Teitur Þórðarson ræða við Pablo …
Kjartan Henry Finnbogason og Stefán Teitur Þórðarson ræða við Pablo Punyed í landsleik Íslands og El Salvador fyrir rúmum þremur árum. Ljósmynd/KSÍ

Ég er kominn á næsta þrep núna og er að einbeita mér að fjölskyldunni minni. Ég er með tíu mánaða barn heima og annað barn sem er á leikskóla.

Það er bara nóg að gera og ég hef ekki tíma til þess að fara í tveggja vikna ferðir til El Salvador eða annarra landa, þó að það hafi verið mjög gaman á þeim tíma og ég er rosa stoltur af honum. Ég held að þessum kafla sé lokið hjá mér, allavega sem stendur,“ sagði Pablo.

Bróðirinn leikur með Ægi og Níkaragva

Yngri bróðir hans, Renato, er leikmaður Ægis frá Þorlákshöfn. Hann á átta A-landsleiki að baki fyrir Níkaragva.

„Pabbi er frá El Salvador og mamma er frá Níkaragva. Við höfðum þannig séð tækifæri til þess að velja. Hann fékk tækifærið hjá Níkaragva og valdi að spila fyrir þá. Það hefur verið mjög gott fyrir hann og hann hefur spilað risastóra leiki.

Hann er núna í Ægi, sem fékk óvænt tækifæri í 1. deildinni, og það er bara enn betra fyrir hann. Það gengur vel hjá honum persónulega þó að liðið sé aðeins að ströggla á þessari stundu. Það er klárt mál og maður sér það að hann á heima á þessu stigi eða jafnvel aðeins ofar,“ sagði Pablo um bróður sinn.

Ítarlegt viðtal er við Pablo í Morgunblaðinu í dag og þar má sjá úrvalslið maímánaðar hjá blaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert