Það er bara þannig hjá FH

Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum ekki nógu klókir,“ sagði þjálfari FH, Heimir Guðjónsson, í samtali við mbl.is eftir súrt 3:1-tap gegn Breiðabliki í bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Við bökkuðum aðeins of mikið og náðum ekki að halda boltanum nógu vel innan liðsins. Við vorum ekki nógu klókir að klára sóknirnar okkar. Við vorum svolítið að fá pressu á okkur aftur og aftur í staðinn fyrir að við næðum að sækja og klára. Þeir voru svolítið að sækja á okkur í stöðum þar sem við vorum ekki skipulagðir.

En heilt yfir þá held ég að við getum verið nokkuð ánægðir með frammistöðu liðsins og eins og ég segi þá verðum við bara að halda áfram,“ sagði Heimir er hann var spurður um hvað klikkaði undir lokinn. 

Það hefur verið mikill stígandi í FH-liðinu frá síðustu leiktíð og byrjun þessarar. FH-ingar eru í fjórða sæti deildarinnar og hafa verið að gefa efstu liðunum hörkuleiki.  

„Okkur hefur verið að ganga ágætlega upp á síðkastið og menn eru til í að leggja ýmislegt á sig til að ná árangri. Hlutirnir eru þó fljótir að breytast í fótbolta og við þurfum að halda áfram að vinna vel á æfingasvæðinu. Það hafa verið framfarir og það er þannig hjá FH að þegar menn eru tilbúnir að vinna saman og hjálpa hvor öðrum þá gerast oft góðir hlutir.“

Hvernig leggst svo leikurinn gegn Blikum í deildinni í þig á laugardaginn? 

„Bara vel. Við þurfum að æfa vel í vikunni og undirbúa þann leik vel. Blikaliðið er auðvitað gríðarlega öflugt og með valinn mann í hverri stöðu og mikla breidd þannig við þurfum að vanda til verka á laugardaginn,“ sagði Heimir að lokum. 

mbl.is