Gamla ljósmyndin: Kögglavinafélagið

Morgunblaðið/Einar Falur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Áhugaverður moli birtist í tímaritinu Íþróttablaðið í júlí árið 1989 en Þorgrímur Þráinsson ritstýrði þá tímaritinu. Þar stendur: 

„Meðal landsliðsmannanna í knattspyrnu er starfandi félag sem eingöngu litlir og sterkir liðsmenn fá inngöngu í. Félagið heitir „Kögglavinafélagið“ og er Ólafur Þórðarson stofnandi þess og kemur það fæstum á óvart. Meðlimir þessa félags þykja jaxlar hinir mestu og gorta sig af því hversu sterkir þeir séu í „sjómanni“. Allir aðrir landsliðsmenn eru vitanlega skíthræddir við kögglana enda ganga þeir um með spennta vöðva og á háhæluðum skóm þegar landsliðið undirbýr sig fyrir leiki. Pétur Arnþórsson er köggull að mati Óla Þórðar enda eru þeir báðir í „brjósthæð“ og síðast en ekki síst hefur Gunnar Gíslason fengið inngöngu í Kögglavinafélagið.“

Á meðfylgjandi mynd eru þeir Pétur Arnþórsson vinstra megin og Ólafur Þórðarson hægra megin í landsleik þetta sama sumar 1989 gegn Austurríki í undankeppni HM 1990 en Gunnar Gíslason var einnig í liði Íslands. Myndin sýnir glögglega hversu glæsilegir kögglarnir voru á velli.

Myndina tók Einar Falur Ingólfsson og birtist hún í umfjöllun um leikinn í Morgunblaðinu 15. júní 1989. 

Pétur Arnþórsson lék 28 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Ólafur Þórðarson lék 72 A-landsleiki og skoraði 5 mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert