Marwijk: Sumir hreinlega ekki í formi

Bert van Marwijk ásamt Rafael van der Vaart.
Bert van Marwijk ásamt Rafael van der Vaart. AFP

Bert van Marwijk landsliðsþjálfari Hollendinga var brúnaþungur eftir tap sinna manna gegn Þjóðverjum á EM í kvöld. Hollendingar hafa tapað báðum leikjum sínum en eiga samt enn veika von um að komast í átta liða úrslitin.

„Við töpuðum á móti mjög góðu liði og ef þú ætlar að vinna Þjóðverja þá þarf allt liðið að spila vel. Í kvöld voru margir langt frá sínu besta og sumir þeirra eru hreinlega bara ekki í formi. Við byrjuðum ágætlega en síðan fór allt úrskeiðis hjá okkur í varnarleiknum,“ sagði Marwijk.

Hollendingar mæta Portúgölum í lokaumferð B-riðilsins og verða að vinna með tveggja marka mun og stóla á að Danir tapi fyrir Þjóðverjum til að eiga möguleika á að fara áfram.mbl.is