Komnar hingað til að skrifa söguna

Corinne Diacre fagnar sínum stúlkum eftir sigurinn á Hollendingum.
Corinne Diacre fagnar sínum stúlkum eftir sigurinn á Hollendingum. AFP/Franck Fife

Corinne Diacre, þjálfari franska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir að sitt lið sé komið í undanúrslit Evrópumótsins á Englandi til þess að skrifa söguna.

Frakkland hefur aldrei áður komist í undanúrslit á EM og hefur fallið út í átta liða úrslitum keppninnar sex sinnum í röð, en á laugardagskvöldið vann franska liðið fráfarandi Evrópumeistara Hollands 1:0. Á miðvikudagskvöld leika Frakkar við Þjóðverja í undanúrslitum.

„Við höfum uppskorið laun erfiðisins. Við erum komnar hingað til að skrifa söguna, leikmennirnir og starfsfólkið ætlar sér að gera þetta að sögulegu móti og við eigum enn talsvert eftir til þess," sagði Diacre við fréttamenn í gær.

„Hópurinn hefur staðið sig vel og nú erum við að búa okkur undir undanúrslitaleik, þannig að við tökum eitt skref í einu. Við erum á nýjum slóðum en þetta er ekki lokatakmarkið, við viljum komast í úrslitaleikinn. Þennan hóp þyrstir í að ná einhverju stóru í sameiningu," sagði Diacre.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin