Ísland átti aldrei von gegn Frökkum

Frá viðureign Íslendinga og Frakka á Ólympíuleikunum í Peking 2008.
Frá viðureign Íslendinga og Frakka á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Brynjar Gauti

Frakkar unnu öruggan sigur, 35:25, á Íslandi í úrslitaleik Parísarmótsins í handknattleik í Bercy-höllinni í dag. Franska liðið var með forystuna allan leikinn en því íslenska tókst að minnka muninn í tvígang í eitt mark í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var, 17:13. Í síðari hálfleik skildu leiðir liðanna og Frakkar réðu lögum og lofum og juku smátt og smátt við forystu sína allt til leiksloka.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Guðmundur Þórður Guðmundsson dreifði álaginu á milli leikmanna að þessu sinni. Hreiðar Levy Guðmundsson markvörður og Sturla Ásgeirsson léku allan leikinn á hvíldar. Ásgeir Örn Hallgrímsson og Ólafur Guðmundsson spiluðu í 50 mínútur hvor en aðrir minna. 

Þetta var síðasti leikur Íslands fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst á þriðjudaginn í Linz. Þá mæta Íslendingar liðsmönnum Serba. Íslenska liðið heldur frá París í kvöld til Austurríkis.

60. Leiknum er lokið með öruggum frönskum sigri. Frakkar voru mikið sterkari í síðari hálfleik. Sóknarleikur íslenska liðsins var slakur og  töpuðu leikmenn liðsins knettinum nítján sinnum í sókninni. Lokatölur, 35:25, Frökkum í vil sem mæta greinilega með firnasterkt lið til leiks á Evrópumeistaramótinu á þriðjudaginn.

Mörk Íslands: Ólafur Guðmundsson 6, Alexander Petersson 5, Róbert Gunnarsson 4, Snorri Steinn Guðjónsson 4/2, Ólafur Stefánsson 2, Sturla Ásgeirsson 2, Ingimundur Ingimundarson 1, Vignir Svavarsson 1.

Hreiðar Levy Guðmundsson stóð allan leikinn í marki Íslands og varði 9 skot, 20% markvarsla. Björgvin Páll Gústavsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson komu ekkert við sögu í leiknum.

Jerome Fernandez var markahæstur Frakka með fimm mörk. Daniel Narcisse, Nikola Karabatic og Cedric Sorhaindo skoruðu fjögur mörk hver.
Í marki Frakka stóð Thierry Omeyer í 40 mínútur og varði 11 skot, þar af eitt vítakast. Daouda Karaboue var í markinu í 20 mínútur og varði 4 skot, þar af eitt vítakast.

Áhorfendur voru um 14 þúsund.

54. Stór franskur sigur í uppsiglingu. Frakkar eru komnir með níu marka forskot, 32:23.

50. Skot frá Róberti af línunni var varið og Logi tapaði boltanum í næstu sókn á eftir. Frakkar nýta sér mistökin og hafa náð átta marka forskoti, 29:21.

45. Frakkar komust í 25:16, en fjögur íslensk mörk í röð hafa bætt stöðuna verulega. Staðan nú 25:20, Frökkum í vil. Róbert Gunnarsson er nýkominn inn á í fyrsta sinn í leiknum. Hann skoraði tvö af mörkunum fjórum.

40. Karaboue kom í mark Frakka og varði vítakasti Snorra Steins. Enn sígur á ógæfuhliðina fyrir íslenska landsliðið. Ingimundur var að fara aftur af leikvelli í tvær mínútur, var rétt nýkominn inn á eftir að hafa tekið út refsingu. Munurinn er nú átta mörk, 24:16, Frökkum í hag.

38. Guðmundur þjálfari fær gult spjald fyrir mótmæli eftir að Frakkar vinna vítakast. Alexander hefur skorað tvö mörk í röð og lagað stöðuna aðeins, staðan er 22:16, Frökkum í hag.

35. Áfram heldur að halla undan fæti hjá íslenska liðinu. Frakkar hafa nú sjö marka forystu, 21:14, auk þess verið var að vísa Ingimundi af leikvelli í tvær mínútur. Hann var nýkominn inn á leikvöllinn í fyrsta sinn. Snorri Steinn skoraði fyrsta mark Íslands í síðari hálfleik úr vítakasti, 20:14. Arnór vann vítið.

31. Síðari hálfleikur er hafinn. Íslenska landsliðið byrjar ekki vel. Frakkar skora tvö fyrstu mörkin. Tvö skot frá Arnóri fara í vaskinn. 

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Frakkar hafa fjögurra marka forskot, 17:13. Sóknarleikur íslenska liðsins var mistækur á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og það reyndist dýrt.
Ólafur Guðmundsson er markahæstur með fimm mörk, Alexander Petersson er með þrjú mörk, Snorri Steinn Guðjónsson og Sturla Ásgeirsson hafa skoraði tvö mörk hvor og Vignir Svavarsson eitt.
Hreiðar Levy Guðmundsson hefur varið fimm skot í markinu.

Björgvin Páll Gústavsson, Ingimundur Ingimundarson, Aron Pálmarsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Róbert Gunnarsson komu ekkert við sögu í fyrri hálfleik. Þá lék Logi Geirsson aðeins í eina mínútu. Aðrir tóku meira þátt í leiknum.

26. Tvær slæmar sendingar Íslendinga kostuðu tvö mörk. Frakkar komust í 13:10, en íslenska liðið hefur nú minnkað muninn í eitt mark, 13:12, með mörkum frá Sturlu og Vigni.

22. Íslendingar hafa nú minnkað muninn í eitt mark, 11:10, fyrir Frakka. Ólafur Guðmundsson fer hamförum og hefur skorað fjögur mörk. Frökkum gengur illa að ráða við ungstirnið úr Hafnarfirði.

21. Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari tekur leikhlé, staðan er 11:9, Frökkum í vil.

18. Tvö íslensk mörk í röð, annað frá Ólafi Guðmundssyni og hitt frá Sturlu Ásgeirssyni. Ólafur hefur verið als ófeiminn við að skjóta á mark Frakka. Munurinn nú kominn í tvö mörk, 10:8.

15. Snorri var að minnka muninn í fjögur mörk, 10:6, úr vítakasti, sem Sverre vann eftir hraðaupphlaup. Frakkar halda góðum tökum á leiknum og sem fyrr hefur Omeyer reynt íslenska liðinu óþægur ljár í þúfu í marki Frakka. 

8. Allt gengur á afturfótunum hjá íslenska liðinu. Ásgeir Örn var rekinn af leikvelli í tvær mínútur, tvígrip var dæmt á Ólaf Guðmundsson. Hann vann vítakast skömmu síðar en Omeyer í franska markinu varði vítakst Snorra Steins. Frakkar leika vel og eru yfir, 6:2.

5. Frakkar byrja betur. Þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin en Ólafur Guðmundsson kom íslenska liðinu á bragðið með langskoti eftir þrjár og hálfa mínútu. Frakkar svöruðu um hæl, staðan er 3:1, fyrir Frakka, sem eru með sitt sterkasta lið í leiknum.

2. Hreiðar og Omeyer vörðu fyrstu skotin sem komu á mark þeirra í dag. Jerome Ferandez opnaði síðan markareikning leiksins með fyrsta marki Frakka eftir 1, 56 mínútur. 

Hreiðar Levy Guðmundsson hefur leikinn í íslenska markinu. Hann sat á varamannabekknum í gær gegn Spánverjum þegar Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik.  Aðrir sem hefja leikinn í dag eru Vignir Svavarsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Alexander Petersson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Ólafur Guðmundsson og Sverre Jakobsson.

Allir 16 leikmenn EM-hópsins sem Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, valdi fyrir helgina verða á leikskýrslu í dag, þar á meðal Aron Pálmarsson sem kenndi sér eymsla í hné í gær og lék gegn Spánverjum.

Guðmundur landsliðsþjálfari sagði í samtali við mbl.is í gær hann ætlaði að leyfa þeim leikmönnum sem léku lítið sem ekkert gegn Spánverjum í gær að leika stærra hlutverk gegn Frökkum í dag. Þar með væri áætlunin að leyfa þeim leikmönnum sem meira hefur mætt á síðustu daga að hvíla sig sem mest.

Íslendingar og Frakkar mættust síðast í úrslitaleik handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Peking  24. ágúst 2008. Þá unnu Frakkar með fimm marka mun, 28:23. Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina