Grátlegt tap gegn Króatíu

Ísland þurfti að sætta sig við 22:23-tap gegn Króatíu þegar liðin mættust í milliriðli 1 á EM 2022 í handbolta í Búdapest í Ungverjalandi í dag. Sigurmark Króata kom á lokamínútunni.

Í upphafi leiks var ekki mikið skorað en Ísland var þó með yfirhöndina og var komið í 2:4 eftir tæplega ellefu mínútna leik.

Eftir að Króatía minnkaði muninn í 4:5 fór í hönd frábær kafli hjá íslenska liðinu sem skoraði fjögur mörk í röð og náði fimm marka forystu, 4:9, sem var sú mesta sem Ísland náði í leiknum.

Íslenska liðið náði lengst af að halda góðri forystu og komst til að mynda í 7:11 og 8:12.

Undir lok fyrri hálfleiks gaf íslenska vörnin, sem var búin að vera afar sterk stærstan hluta hálfleiksins, hins vegar aðeins eftir og náði Króatía að skora tvö síðustu mörkin fyrir leikhlé.

Staðan því 10:12, Íslandi í vil, í hálfleik. Markverðir beggja liða, Viktor Gísli Hallgrímsson hjá Íslandi og Ivan Pesic hjá Króatíu, v

Króatar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og voru búnir að snúa taflinu við innan nokkurra mínútna, 14:13.

Eftir að Ísland jafnaði metin í 14:14 tóku Króatar leikinn alfarið yfir og skoruðu fimm mörk í röð.

Staðan orðin 19:14 þegar síðari hálfleikurinn var hálfnaður og íslenska liðið aðeins búið að skora tvö mörk í hálfleiknum.

Eftir það tók íslenska liðið hins vegar við sér svo um munaði. Króatía komst í 21:17 en Ísland skoraði næstu fimm mörk og náði þannig forystunni á ný, 21:22.

Þá var hins vegar skammt eftir af leiknum og tókst Íslandi ekki að nýta síðustu sóknir sínar í leiknum.

Króatíu tókst það hins vegar og skoruðu tvö mörk, sneru taflinu við á ögurstundu og tryggðu sér sinn fyrsta sigur í milliriðlinum eftir að skot Elvars Ásgeirssonar úr aukakasti á lokasekúndunni fór í varnarvegginn.

Ivan Pesic átti stórleik í marki Króatíu og lokaði markinu á löngum stundum í síðari hálfleik. Á þeim kafla í hálfleiknum sem Ísland gat vart skorað var króatíska vörnin sömuleiðis afar sterk.

Varði Pesic alls 14 skot og var með tæplega 40 prósent markvörslu.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti einnig góðan leik í marki Íslands og varði tíu skot, sem er um 35 prósent markvarsla.

Orri Freyr Þorkelsson lék vel í vinstra horninu og var markahæstur Íslendinga með sex mörk. Ómar Ingi Magnússon og Sigvaldi Björn Guðjónsson komu þar á eftir með fimm mörk hvor.

Tin Lucin var markahæstur Króata með sex mörk og Ivan Cupic og Ivan Martinovic skoruðu fimm mörk hvor.

Þurfa sigur gegn Svartfjallalandi

Ógöngur Íslands gegn Króatíu halda þar með áfram en liðinu hefur aldrei tekist að sigra Króata á stórmóti. Tapleikirnir gegn þeim eru nú orðnir átta auk eins jafnteflis.

Ísland á enn prýðis möguleika á að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM.

Til þess þarf liðið að vinna Svartfjallaland í lokaleik sínum í milliriðlinum og um leið treysta á að Danmörk vinni Frakkland.

Fimm leikmenn Íslands sem smituðust af kórónuveirunni ættu þá að öllu óbreyttu að snúa aftur í íslenska leikmannahópinn fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi á miðvikudaginn.

Þetta eru þeir Aron Pálmarsson fyrirliði, Bjarki Már Elísson, Elvar Örn Jónsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ólafur Andrés Guðmundsson. Allir ættu þeir að losna úr einangrun í dag eða á morgun.

Ísland 22:23 Króatía opna loka
60. mín. Ante Gadza (Króatía) skoraði mark Brýst í gegn og skorar.
mbl.is