Gallas jafnaði á síðustu mínútu, Arsenal - Man.Utd 2:2

Cesc Fabregas sendir boltann í markið há Man.Utd án þess ...
Cesc Fabregas sendir boltann í markið há Man.Utd án þess að Edwin van der Sar fái rönd við reist. Reuters
Arsenal og Manchester United, toppliðin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, skildu jöfn, 2:2, í mögnuðum leik á Emirates-leikvanginum í dag. William Gallas jafnaði metin fyrir Arsenal þegar ein mínúta var liðin af uppbótartíma en Cristiano Ronaldo hafði komið Manchester United yfir þegar átta mínútur voru til leiksloka.

Manchester United komst yfir á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Markið var skráð sem sjálfsmark hjá Gallas en Wayne Rooney átti skotið. Cesc Fabregas jafnaði strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks, 1:1. Ronaldo virtist hafa tryggt United sigurinn undir lokin en Gallas náði að bæta fyrir sjálfsmarkið og jafna á síðustu stundu.

Arsenal og Manchester United eru þá áfram jöfn á toppnum með 27 stig hvort en Arsenal er áfram taplaust og á leik til góða.

Patrice Evra, vinstri bakvörður Man.Utd, fékk fyrsta gula spjaldið á 16. mínútu fyrir að skella Emmanuel Adebayor sem var á fullri ferð upp kantinn.

Ryan Giggs hjá Man.Utd fékk fyrsta hættulega marktækifæri leiksins á 17. mínútu þegar hann skaut framhjá af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Cristiano Ronaldo frá hægri.

Owen Hargreaves hjá Man.Utd fékk gula spjaldið á 26. mínútu fyrir að brjóta á Aleksandr Hleb.

William Gallas var hársbreidd frá því að koma Arsenal yfir á 36. mínútu þegar hann átti hörkuskalla eftir aukaspyrnu frá Cesc Fabregas en Edwin van der Sar varði naumlega með fótunum.

Fabregas hjá Arsenal fékk gula spjaldið á 40. mínútu fyrir að brjóta á Anderson.

0:1. Þegar nákvæmlega 45 mínútur voru liðnar sendi Cristiano Ronaldo fyrir mark Arsenal frá hægri, fasta sendingu með jörðu, og á markteignum nær skaut Wayne Rooney viðstöðulaust í nærhornið, 0:1.

Staðan 0:1 í hálfleik, lítið um marktækifæri en mikil barátta og þrjú gul spjöld þegar farin á loft. Tilkynnt var í hálfleik að Wayne Rooney yrði ekki skráður fyrir markinu, boltinn breytti stefnu af William Gallas og markið því skráð sem sjálfsmark.

1:1. Arsenal byrjaði seinni hálfleik eins og best varð á kosið. Á 48. mínútu fékk Adebayor sendingu inní vítateiginn, van der Sar varði skot hans með úthlaupi, boltinn hrökk að endamörkum hægra megin þar sem Bacary Sagna náði honum af harðfylgi, renndi út á markteiginn þar sem Cesc Fabregas var í dauðafæri og hann renndi boltanum yfirvegað í vinstra markhornið.

Arsenal fékk upplagt færi á 58. mínútu, aukaspyrnu við vítateigslínu. Fabregas tók spyrnuna en van der Sar varði skot hans af öryggi.

Manchester United fékk dauðafæri á 64. mínútu. Snögg sókn, Ryan Giggs lyfti boltanum inní vítateiginn þar sem Wayne Rooney kom á ferðinni en skallaði framhjá marki Arsenal af stuttu færi.

John O'Shea kom inná fyrir Wes Brown sem hægri bakvörður hjá Man.Utd á 71. mínútu.

Theo Walcott kom inná fyrir Emmanuel Eboue á hægri kantinn hjá Arsenal á 75. mínútu.

Louis Saha kom inná fyrir Carlos Tévez hjá Man.Utd á 76. mínútu og Michael Carrick kom inná fyrir Anderson. Tvöföld skipting.

Arsenal skipti líka tvöfalt á 80. mínútu. Eduardo og Gilberto komu inná fyrir þá Aleksandr Hleb og Tomas Rosicky.

1:2. Manchester United komst yfir á ný á 82. mínútu. Patrice Evra fékk sendingu inní vítateig Arsenal, vinstra megin, og sendi beint inná miðjan markteig þar sem Cristiano Ronaldo kom á ferðinni og afgreiddi boltann í markið.

Litlu munaði að Evra sendi boltann í eigið mark á 85. mínútu. Eftir fyrirgjöf frá vinstri ætlaði Evra að hreinsa frá marki Man.Utd en hitti boltann illa og hann fór í þverslána og yfir markið!

Eduardo komst í fínt færi vinstra megin í vítateig Man.Utd á 90. mínútu en var fljótur á sér og þrumaði boltanum framhjá markinu. Þremur mínútum var bætt við leiktímann.

2:2. Þegar um ein mínúta var liðin af uppbótartímanum fékk William Gallas boltann við vinstra markteigshorn og skoraði með föstu skoti. Van der Sar varði boltann, inni í markinu, boltinn dansaði um í markteignum og leikurinn hélt áfram en svo kom í ljós að aðstoðardómari hafði veifað, og markið var staðfest.

Lið Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Toure, Clichy, Eboue, Hleb, Fabregas, Flamini, Rosicky, Adebayor.
Varamenn: Lehmann, Diarra, Eduardo, Walcott, Gilberto.

Lið Man. Utd: Van der Sar, Brown, Ferdinand, Vidic, Evra, Ronaldo, Hargreaves, Anderson, Giggs, Rooney, Tévez.
Varamenn: Kuszczak, Saha, Carrick, Nani, O'Shea.

Arsenal er með 26 stig eftir 10 leiki og hefur ekki tapað leik en Manchester United er með 26 stig eftir 11 leiki og hefur unnið átta deildaleiki í röð. eftir að hafa fengið tvö stig í fyrstu þremur leikjum sínum. Næst koma Manchester City með 22 stig og Chelsea og Blackburn með 21 stig. Liverpool kemur þar á eftir með 20 stig og sækir einmitt Blackburn heim í dag.

Aðrir leikir í dag:
15.00 Aston Villa - Derby
15.00 Everton - Birmingham
15.00 Fulham - Reading
15.00 Middlesbrough - Tottenham
15.00 Newcastle - Portsmouth
15.00 Wigan - Chelsea
17.15 Blackburn - Liverpool

Owen Hargreaves og Cesc Fabregas eigast við í leiknum á ...
Owen Hargreaves og Cesc Fabregas eigast við í leiknum á Emirates í dag. Reuters
Arsene Wenger og Alex Ferguson takast á í dag með ...
Arsene Wenger og Alex Ferguson takast á í dag með lið sín. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina