Capello með bestan árangur allra

Fabio Capello vann 28 leiki sem þjálfari enska landsliðsins.
Fabio Capello vann 28 leiki sem þjálfari enska landsliðsins. Reuters

Fabio Capello, sem í gærkvöld sagði af sér sem landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, hefur náð bestum árangri allra þjálfara enska landsliðsins frá síðari heimsstyrjöldinni, ef hlutfall sigurleikja er skoðað.

Ítalinn stýrði enska liðinu í 42 leikjum og það vann 28 þeirra, eða 66,7 prósent. Liðið gerði 8 jafntefli og tapaði aðeins 6 leikjum undir hans stjórn.

Hann er nokkuð á undan Alf Ramsey, þjálfara heimsmeistaraliðs Englands 1966, en Englendingar unnu 69 af 113 leikjum sínum undir hans stjórn á árunum 1963 til 1974, eða 61,1 prósent leikjanna.

Tólf þjálfarar hafa stýrt landsliði Englands frá 1946 og sigurhlutfall þeirra er sem hér segir, fyrst prósentan og síðan sigrar/leikir:

66,7%  28/42   Fabio Capello, 2008-2012
61,1%  69/113 Alf Ramsey, 1963-1974
60,7%  17/28   Glenn Hoddle, 1996-1999
60,0%  33/55   Ron Greenwood, 1977-1982
59,7%  40/67   Sven-Göran Eriksson, 2001-2006
56,1%  78/139 Walter Winterbottom, 1946-1962
50,0%    9/18   Steve McClaren, 2006-2007
49,5%  47/95   Bobby Robson, 1982-1990
48,3%  14/29   Don Revie, 1974-1977
47,8%  11/23   Terry Venables, 1994-1996
47,4%  18/38   Graham Taylor, 1990-1993
38,9%    7/18   Kevin Keegan, 1999-2000

Terry Venables tapaði reyndar hlutfallslega fæstum leikjum. Enska landsliðið tapaði bara einum leik af 23 undir hans stjórn en gerði hinsvegar 11 jafntefli. Hjá Kevin Keegan voru jafnteflin líka mörg eða 7 í 18 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert