Venables: Ráðningin dregist alltof lengi

Terry Venables, til hægri, hefur verið bæði þjálfari og aðstoðarþjálfari …
Terry Venables, til hægri, hefur verið bæði þjálfari og aðstoðarþjálfari enska landsliðsins. Reuters

Terry Venables, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, segir að enska knattspyrnusambandið hafi dregið það alltof lengi að ráða næsta landsliðsþjálfara.

Eftirmaður Fabios Capellos verður ekki tilkynntur fyrr en að loknu  tímabilinu í Englandi og Venables segir að þá fái viðkomandi alltof lítinn tíma til að setja sig inn í málin.

„Þetta er búið að dragast alltof lengi og enginn virðist vita í raun og veru hvað er í gangi. Ég sé ekki kostina við það að koma að liðinu á síðustu stundu. Þjálfarinn verður að kynnast leikmönnunum, ekki bara í sjón heldur líka hvernig þeir tala og hvernig þeim líður. Hann þarf að komast í nálægð við einstaklingana," sagði Venables við BBC, og kvaðst vonast eftir því að Harry Redknapp yrði ráðinn.

„Harry er rétti maðurinn, hann hefur allt til að bera og spurningin er bara hvort hann vill starfið. Það jákvæða er að allir virðast vilja fá hann og það yrði mjög vinsæl ráðning. Ef Harry tekur ekki við liðinu verður það að vera Englendingur, en hann fær þó ekki 6 milljónir punda á ári eins og Capello.

Þegar spilað er í Meistaradeildinni eða úrvalsdeildinni má þjálfarinn koma hvaðan sem er úr heiminum. En í landsleikjum er þetta eins og í styrjöldunum - það er ekki hægt að ráða til sín hershöfðingja - þú verður að nota þína eigin. Spánn og Þýskaland eru alltaf með sína eigin menn, og ef við töpum, vil ég að það sé með okkar eigin fólki," sagði Venables sem stýrði enska liðinu á EM 1996.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert