Suárez hetja og skúrkur

Eden Hazard og Jordan Henderson í baráttunni í dag.
Eden Hazard og Jordan Henderson í baráttunni í dag. AFP

Luis Suárez tryggði Liverpool 2:2 jafntefli gegn Chelsea með marki á sjöundu mínútu uppbótartíma þegar liðin mættust á Anfield í dag. Hann hafði áður fengið dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að slá boltann, og bitið andstæðing sinn án þess að dómarar yrðu þess varir.

Oscar kom Chelsea í 1:0 með skallamarki í fyrri hálfleik. Daniel Sturridge kom inn á sem varamaður hjá Liverpool í byrjun seinni hálfleiks og lífgaði mikið upp á leikinn. Hann jafnaði metin með marki á 52. mínútu en Chelsea komst yfir á nýjan leik með fyrrnefndri vítaspyrnu sem Eden Hazard skoraði úr.

Í stöðunni 2:1 sást Suárez bíta Branislav Ivanovic í handlegginn eftir að þeir höfðu verið að kljást um boltann, en dómarar misstu af atvikinu.

Chelsea er því áfram í 4. sæti deildarinnar en nú með 62 stig, stigi á undan Tottenham og stigi á eftir Arsenal sem hefur leikið einum leik meira. Liverpool er í 7. sæti með 51 stig.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Liverpool - Chelsea, 2:2
(Daniel Sturridge 52., 90.+7 - Oscar 26., Eden Hazard 57. (víti))

90. Leik lokið.

90.+7 MARK! Þvílík dramatík! Luis Suárez tryggir Liverpool stig með skallamarki af stuttu færi eftir fallega fyrirgjöf frá Daniel Sturridge. Það var sex og hálf mínúta liðin af uppbótartíma og dómarinn flautaði af um leið og Chelsea hafði tekið miðjuna eftir markið.

90.+3 Luis Suárez kom boltanum á Jordan Henderson hægra megin í vítateig Chelsea en Henderson skaut viðstöðulausu skoti framhjá markinu.

90. Það verða sex mínútur af uppbótartíma.

85. Varamaðurinn Jonjo Shelvey var nálægt því að jafna metin fyrir Liverpool eftir laglegt spil heimamanna en skot hans vinstra megin í teignum fór í hliðarnetið.

68. Luis Suárez virðist hafa tekið sig til og bitið í Branislav Ivanovic. Ivanovic ýtti honum frá sér en sjónvarpsupptökur sýndu ekki vel hvort Suárez virkilega beit Serbann. Suárez hefur áður gerst sekur um þetta furðulega athæfi en hann fékk sjö leikja bann í Hollandi 2010 fyrir að bíta andstæðing.

67. Liverpool var að fá aukaspyrnu alveg við vítateigslínuna hjá Chelsea. Jamie Carragher vildi fá vítaspyrnu en svo virtist sem rétt væri að dæma aukaspyrnu.

57. MARK! Chelsea var ekki lengi að ná forystunni á nýjan leik. Eden Hazard skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni.

55. VÍTI! Liverpool fékk dæmda á sig vítaspyrnu þegar Luis Suárez sló knöttinn innan teigs eftir fyrirgjöf. Suárez fékk réttilega gula spjaldið fyrir þessi heimskupör.

52. MARK! Liverpool er búið að jafna metin, 1:1, og það gerði varamaðurinn Daniel Sturridge með skoti af stuttu færi eftir glæsilegt, einnar snertingar samspil heimamanna. Jamie Carragher átti góða sendingu fram hægri kantinn á Stewart Downing sem kom honum laglega til hliðar á Luis Suárez, og Suárez sendi strax fyrirgjöf á Sturridge. Þvílík innkoma hjá Sturridge!

47. Daniel Sturridge ætlar að sýna hvað hann getur gegn sínu gamla liði. Hann lék á Eden Hazard og þrumaði svo utan teigs í stöng og út. Hann er búinn að skapa meiri hættu á tveimur mínútum en Liverpool gerði allan fyrri hálfleikinn.

46. Daniel Sturridge kom inná fyrir Philippe Coutinho í upphafi seinni hálfleiks og var ekki lengi að stimpla sig inn. Hann átti stungusendingu á Steven Gerrard sem var í algjöru dauðafæri í teignum en Petr Cech varði vel frá honum í horn.

45. Hálfleikur.

41. Luis Suárez komst í ágætt en nokkuð þröngt færi hægra megin í vítateig Chelsea en Petr Cech varði skot hans.

38. Fernando Torres fékk að líta gula spjaldið fyrir að gefa sínum gamla liðsfélaga, Jamie Carragher, olnbogaskot í baráttu um boltann.

29. David Luiz tók fasta aukaspyrnu sem fór beint á Pepe Reina en Spánverjinn missti boltann og rétt náði að handsama hann áður en knötturinn fór yfir marklínuna.

26. MARK! Chelsea er komið í 1:0. Brasilíumaðurinn Oscar skoraði með frábærum skalla eftir hornspyrnu frá hægri. Hann þurfti að sækja boltann út í teiginn og náði skalla efst í nærhornið. Slakur varnarleikur hjá Liverpool.

15. Leikurinn byrjar nú ekki með miklum látum. Glen Johnson fékk besta færið hingað til eftir stungusendingu frá Luis Suárez snemma leiks en hann potaði boltanum framhjá Petr Cech og framhjá markinu.

1. LEIKUR HAFINN.

0. Fernando Torres er í byrjunarliðinu gegn sínu gamla liði en Demba Ba á bekknum. Daniel Sturridge er á bekknum hjá Liverpool en hann kom til liðsins frá Chelsea í janúar.

0. Byrjunarliðin eru klár og hægt að sjá þau hér að neðan.

Liverpool: Reina, Johnson, Enrique, Agger, Carragher, Lucas, Gerrard, Henderson, Downing, Coutinho, Suárez.
Varamenn: Jones, Skrtel, Coates, Shelvey, Coady, Assaidi, Sturridge.

Chelsea: Cech, Azpilicueta, Ivanovic, Luiz, Bertrand, Mikel, Ramires, Mata, Hazard, Oscar, Torres.
Varamenn: Turnbull, Ferreira, Terry, Lampard, Benayoun, Moses, Ba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert