Hafdís kjörin íþróttamaður Akureyrar

Íþróttamaður Akureyrar 2013 - Frá vinstri: Einar Kristinn Kristgeirsson skíðamaður …
Íþróttamaður Akureyrar 2013 - Frá vinstri: Einar Kristinn Kristgeirsson skíðamaður í 2. sæti, Hafdís Sigurðardóttir frjálsíþróttamaður í 1. sæti og Ingvar Þór Jónsson íshokkímaður sem varð í 3. sæti. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hafdís Sigurðardóttir, frjálsíþróttakona úr Ungmennafélagi Akureyrar, UFA, var í dag útnefnd íþróttamaður Akureyrar árið 2013 en kjörinu var lýst í hóf á  vegum Íþróttabandalags Akureyrar og íþróttaráðs Akureyrarbæjar í Menningarhúsinu Hofi.

Hafdís setti sitt fyrsta Íslandsmet í flokki fullorðinna í sumar er hún tvíbætti metið í langstökki kvenna. Þá setti hún einnig Íslandsmet í 60m og 300m hlaupi í sumar. Hún er sexfaldur Íslandsmeistari kvenna í spretthlaupum og langstökki innan og utanhúss á árinu 2013. Hún sigraði í öllum hlaupum sem hún tók þátt í hér heima sumarið 2013 og er stigahæsta kona í spretthlaupum  á árinu í 100m hlaupi á 11,88 sekúndum, 200m hlaupi á 23,81sekúndu og 400m hlaupi á 54,03 sekúndum.

Eftir keppnistímabilið 2013 er hún komin í Ólympíuhóp FRÍ 2016 í langstökki, 200m hlaupi og 400m hlaupi, og stefnir að þátttöku á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Hafdís keppti fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg og hlaut verðlaun í spretthlaupum, langstökki og boðhlaupum á mótinu.

Einar Kristinn Kristgeirsson úr Skíðafélagi Akureyrar varð annar í kjörinu og Ingvar Þór Jónsson frá Skautafélagi Akureyrar varð þriðji.

Hafdís Sigurðardóttir á Reykjavíkurleikunum um síðustu helgi.
Hafdís Sigurðardóttir á Reykjavíkurleikunum um síðustu helgi. mbl.is/Golli
mbl.is