Verða Eiður og Björn samherjar?

Björn Bergmann Sigurðarson fagnar marki með Wolves.
Björn Bergmann Sigurðarson fagnar marki með Wolves. Ljósmynd/wolves.co.uk

Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson gæti verið á leið aftur til norska úrvalsdeildarliðsins Molde sem Eiður Smári Guðjohnsen leikur með.

Samkvæmt heimildum norska blaðsins Romsdals Budstikke er Molde í viðræðum við Björn Bergmann en hann er án samnings þar sem samningur hans við enska B-deildarliðið rann út í vor.

Björn Bergmann, sem er 25 ára gamall framherji, hóf atvinnumannsferil sinn með Lilleström í Noregi sem hann lék með frá 2009 til 2012. Hann samdi við Wolves árið 2012 en var lánaður til Molde árið 2014 þar sem varð bæði norskur meistari og bikarmeistari.

Hann lék síðan sem lánsmaður með danska úrvalsdeildarliðinu FC Köbenhavn í fyrra og varð bikarmeistari með því en hann sneri síðan aftur til Úlfanna þar sem hann lék 14 leiki á síðustu leiktíð.

mbl.is