Íhugaði aldrei að fara

Alberto Moreno og Jürgen Klopp.
Alberto Moreno og Jürgen Klopp. AFP

Spánverjinn Alberto Moreno segist aldrei hafa íhugað að yfirgefa Liverpool en flestir reiknuðu með því að hann færi frá liðinu í sumar.

Moreno var varaskeifa fyrir James Milner í vinstri bakvarðarstöðunni hjá Liverpool á síðustu leiktíð og þegar Liverpool gekk frá kaupum á bakverðinum Andrew Robertson frá Hull í sumar áttu flestir von á því að dagar Spánverjans á Anfield væru taldir.

En annað hefur komið á daginn. Moreno hefur spilað flesta leiki Liverpool-liðsins á tímabilinu og hefur verið í hópi bestu leikmanna liðsins á tímabilinu.

„Hugmynd mín var að halda kyrru fyrir, leggja mig meira fram og vinna sæti mitt í liðinu. Ég sá mig hafa getu til þess. Ég ræddi við Klopp og hann sagðist ekki geta lofað neinu og ég yrði bara að leggja meira á mig þar sem liðið ætlaði að kaupa annan vinstri bakvörð.

Ég hugsaði með mér að það væri ekki rétt. Ég ræddi við mitt fólk og það sagði mér að halda áfram að berjast, byrja frá grunni og sjá svo til. Og hér erum við,“ segir Moreno á vef Sky Sports.

mbl.is