Watford vill ekki sleppa Silva

Marco Silva virðist vera efstur á óskalista hjá forráðamönnum Everton.
Marco Silva virðist vera efstur á óskalista hjá forráðamönnum Everton. AFP

Watford hefur neitað beiðni Everton um að fá að ræða við portúgalska knattspyrnustjórann Marco Silva. Það er BBC sem greinir frá þessu.

Everton er enn í leit að knattspyrnustjóra til frambúðar, en David Unsworth tók við stjórnartaumunum hjá liðinu eftir að Ronald Koeman hætti í lok október síðastliðins. 

Everton hefur haft betur í einum af þeim fjórum leikjum sem liðið hefur leikið undir stjórn Unsworth. Sá sigur kom einmitt gegn lærisveinum Silva hjá Watford. 

Sam Allardyce og Sean Dyche hafa einnig verið nefndir til sögunnar til þess að taka við stýrinu á Goodison Park, en svo virðist sem Silva sé efstur á óskalista forráðamanna Everton. 

mbl.is