Jóhann Berg er tilnefndur

Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. AFP

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er einn fjögurra leikmanna sem er tilnefndur sem besti leikmaður janúarmánaðar hjá enska úrvalsdeildarliðinu Burnley.

Jóhann Berg hefur verið einn besti leikmaður Burnley á tímabilinu. Hann hefur skorað tvö mörk, gegn Liverpool og Manchester City, og hefur lagt upp fimm mörk fyrir félaga sína í deildinni á tímabilinu.

Jóhann var valinn besti leikmaður Burnley fyrir nóvember og hann ásamt Ben Mee, Charlie Taylor og Ashley Barnes eru tilnefndir leikmenn janúarmánaðar hjá Burnley.

Illa hefur gengið hjá Burnley að næla í sigur síðustu vikurnar en liðið hefur spilað 11 leiki í röð án sigurs í öllum keppnum. Jóhann Berg og félagar fá nú kærkomið tækifæri til að hlaða batteríin því Burnley á ekki leik fyrr en 24. þessa mánaðar en þá tekur það á móti Southampton.

mbl.is