Menn höfðu miklar efasemdir

David de Gea, markvörðurinn frábæri í liði Manchester United.
David de Gea, markvörðurinn frábæri í liði Manchester United. AFP

Rio Ferdinand, fyrrverandi miðvörður Manchester United, segir að liðsfélagar sínir hafi haft miklar efasemdir um að spænski markvörðurinn gæti orðið í heimsklassa þegar United keypti hann frá Atlético Madrid árið 2011.

Ferdinand ræddi um De Gea eftir frammistöðu hans í leiknum gegn Sevilla í Meistaradeildinni í gær en Spánverjinn sýndi stórkostleg tilþrif undir lok fyrri hálfleiks þegar hann varði skalla leikmanns Sevilla af stuttu færi á glæsilegan hátt. De Gea hélt marki sínu hreinu í 19. skipti á leiktíðinni en markalaust jafntefli varð niðurrstaðan í Sevilla.

Ferdinand segist alltaf hafa verið viss um að De Gea yrði einn sá besti og það hefur komið á daginn. De Gea hefur verið besti leikmaður Manchester-liðsins undanfarin ár og er orðinn einn besti ef ekki besti markvörður heimsins.

„Menn höfðu efasemdir þegar hann kom ungur að árum til Manchester United og við urðum að vinna á hverju ári. Menn spurðu hvernig gerum við það með þennan unga strák sem var reynslulítill og leit út fyrir að hafa lítið sjálfstraust. En þið sjáið hvar hann er í dag og það er til merkis um einhvern sem hefur lagt mikið á sig til að komast á það stað sem hann vildi,“ sagði Ferdinand.

mbl.is