Guardiola í tveggja leikja bann í Meistaradeildinni

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City þarf að horfa á fyrsta ...
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City þarf að horfa á fyrsta leik liðsins í Meistaradeildinni úr stúkunni. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann í Meistaradeild Evrópu. Spánverjinn var sendur upp í stúku í síðari leik City og Liverpool í átta liða úrslitum keppninnar fyrir að rífast við dómara leiksins í hálfleik.

Guardiola mun taka út eins leiks bann í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en hinn leikurinn er skilorðsbundinn. Guardiola stýrði City til sigurs í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á leiktíðinni sem var að líða en hann gaf það út á dögunum að hann gæti hætt með liðið eftir næsta tímabil.

Stjórinn vill reyna fyrir sér sem landsliðsþjálfari en hann hefur ekki verið þekktur fyrir það að stoppa lengi á sama stað, á stuttum þjálfaraferli sínum með Barcelona og Bayern München.

mbl.is