Jólaveislan er hafin

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fagnar sigri. Hans menn verða í …
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fagnar sigri. Hans menn verða í efsta sætinu þegar jólin ganga í garð. AFP

Um jól og áramót er jafnan mikið um að vera í enska fótboltanum. Hvergi eru knattspyrnuleikir eins stór hluti af hátíðahöldunum og á Bretlandseyjum en leiknar eru fjórar umferðir í ensku deildakeppninni, þar á meðal í úrvalsdeildinni, frá 21. desember til 3. janúar.

Jólaveislan hófst í gærkvöld með viðureign Wolves og Liverpool og henni lýkur með sannkölluðum stórleik 3. janúar þegar toppliðin Manchester City og Liverpool mætast á Etihad-leikvanginum í Manchester. Miðað við stöðuna í deildinni og það forskot sem þessi lið hafa þegar náð er næstum því hægt að tala um síðari úrslitaleikinn um meistaratitilinn enda þótt heilmikið verði að sjálfsögðu enn eftir af tímabilinu.

Átjánda umferð deildarinnar er að mestu leikin í dag, nítjánda umferð á öðrum degi jóla, tuttugasta umferð laugardaginn 29. desember og sú 21. á nýársdag.

Gríðarlega mikið er í húfi fyrir hvert einasta lið, enda getur hvert lið fyrir sig náð í tólf mikilvæg stig á þessum tæplega tveimur vikum. Oft eru jólaleikirnir vendipunktur hjá liðum, til hins betra eða verra, og hægt að taka stór stökk upp stigatöfluna, eða hrapa niður hana með ógnarhraða. Flest liðanna spila leikina á aðeins tíu dögum, frá 22. desember til 1. janúar, þannig að á þessum tíma reynir meira á styrk leikmannahópanna en á nokkrum öðrum kafla keppnistímabilsins.

Fyrir utan uppgjör efstu liðanna er viðureign Liverpool og Arsenal á Anfield laugardaginn 29. desember „stærsti“ leikur jólahátíðarinnar en að öðru leyti er ekki um innbyrðis viðureignir að ræða hjá efstu sex liðunum.

Ole Gunnar Solskjær stýrir Manchester United í fyrsta sinn í dag, þegar hann heimsækir eina félagið sem hann hefur áður stjórnað í ensku úrvalsdeildinni – Cardiff, sem er með Aron Einar Gunnarsson innanborðs. Aron lék einmitt undir stjórn Solskjærs árið 2014.

Á öðrum degi jóla verður Íslendingaslagur á Turf Moor í Burnley þegar Jóhann Berg Guðmundsson fær Gylfa Þór Sigurðsson og samherja hans í Everton í heimsókn.

Sex efstu liðin og Íslendingaliðin þrjú eru með eftirfarandi dagskrá um jól og áramót, frá 22. desember til 3. janúar:

Liverpool:

Newcastle (h), Arsenal (h), Manchester City (ú).

Manchester City:

Crystal Palace (h), Leicester (ú), Southampton (ú), Liverpool (h).

Tottenham:

Everton (ú), Bournemouth (h), Wolves (h), Cardiff (ú).

Chelsea:

Leicester (h), Watford (ú), Crystal Palace (ú), Southampton (h).

Arsenal:

Burnley (h), Brighton (ú), Liverpool (ú), Fulham (h).

Manchester United:

Cardiff (ú), Huddersfield (h), Bournemouth (h), Newcastle (ú).

Everton:

Tottenham (h), Burnley (ú), Brighton (ú), Leicester (h).

Cardiff:

Manchester United (h), Crystal Palace (ú), Leicester (ú), Tottenham (h).

Burnley:

Arsenal (ú), Everton (h), West Ham (h), Huddersfield (ú).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert