Jón Daði hafði betur í baráttuleik

Jón Daði Böðvarsson í leik með Reading.
Jón Daði Böðvarsson í leik með Reading. Ljósmynd/Reading

Hart var tekist á í ensku B-deildinni í knattspyrnu þegar Reading og Nottingham Forest mættust á Madejski-vellinum í Reading. Reading hafði betur, 2:0, en alls fóru átta gul spjöld og tvö rauð á loft í leiknum.

Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Reading og spilaði hann í 82 mínútur en John Swift kom heimamönnum yfir á 23. mínútu áður en sigurinn var innsiglaður á þeirri 87. en þá voru gestirnir orðnir tveimur færri.

Danny Fox var einn sex leikmanna Nottingham Forest sem fékk spjald í leiknum og á 62. mínútu fengu þrír leikmenn gul spjöld fyrir munnsöfnuð, þeirra á meðal Fox sem fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Á 83. mínútu fékk svo Tendayi Darikwa beint rautt spjald fyrir brot.

Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Aston Villa sem fékk skell gegn Wigan á DW-leikvanginum, 3:0. Birkir fór af velli á 63. mínútu í stöðunni 1:0 og undir lok leiks bættu heimamenn við tveimur mörkum til að innsigla sigurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka