Vildi aðra áskorun eftir samtal við Lampard

David Luiz í leiknum gegn Burnley.
David Luiz í leiknum gegn Burnley. AFP

Metnaðurinn hjá brasilíska knattspyrnumanninum David Luiz var ástæða þess að hann gekk í raðir Arsenal frá Chelsea. Luiz segir auðveldasta kostinn að hafa verið áfram hjá Chelsea, en hann vildi stærri áskorun.

Luiz lék sinn fyrsta leik með Arsenal í 2:1-sigrinum á Burnley um helgina. Hann lék allan leikinn við hlið Grikkjans Sokratis Papastathopoulos í miðri vörninni og er Luiz spenntur fyrir áskoruninni hjá Arsenal. 

„Ég er með mikinn metnað, þess vegna skipti ég um félag. Ég hefði getað verið áfram í þægindarammanum og þegið launin mín, en ég vildi aðra áskorun.

Ég var ánægður hjá Chelsea og vann titla þar, en eftir samtal við Lampard (knattspyrnustjóra Chelsea), vildi ég aðra áskorun," sagði Luiz í samtali við Sky. 

mbl.is