Tottenham áfrýjar rauða spjaldi Sons

Son Heung-Min með boltann í leiknum gegn Everton í gær.
Son Heung-Min með boltann í leiknum gegn Everton í gær. AFP

Tottenham hefur áfrýjað rauða spjaldinu sem S-Kóreumaðurinn Son Heung-min fékk að líta í seinni hálfleik í viðureign Everton og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Son braut á André Gomes sem í kjölfarið lenti í hörðu samstuði við Serge Aurier með þeim afleiðingum að Gomes ökklabrotnaði.

Martin Atkinsson, dómari leiksins, tók fyrst upp gula spjaldið en eftir að hafa séð ástandið á Gomes skipti hann um skoðun og rak S-Kóreumanninn af velli.

Son var algjörlega miður sín eftir aftvikið grét inni á vellinum áður en hann fór inn í búningsklefann. Rautt spjald þýðir sjálfkrafa þriggja leikja bann og ef rauða spjaldið stendur mun hann missa af leikjum sinna manna gegn Sheffield United, West Ham og Bournemouth.

mbl.is