Frá Liverpool til Aston Villa?

Rhian Brewster hefur ekkert komið við sögu með Liverpool í …
Rhian Brewster hefur ekkert komið við sögu með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. AFP

Enska knattspyrnufélagið Aston Villa vill fá Rhian Brewster á láni frá Liverpool þegar janúarglugginn verður opnaður en það er The Athletic sem greinir frá þessu. Brewster er 19 ára gamall framherji en hann hefur ekkert komið við sögu með Liverpool í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Brewster hefur byrjað tvo leiki í enska deildabikarnum fyrir Liverpool á tímabilinu þar sem honum hefur ekki tekist að skora. Dean Smith, stjóri Aston Villa, vill bæta við sig framherja þegar glugginn verður opnaður í janúar en Wesley sem hefur verið aðalframherji liðsins á tímabilinu hefur ekki skorað í sex leikjum í röð í deildinni.

Þá hefur Aston Villa einnig fylgst með gangi mála hjá Kelechi Iheanacho, framherja Leicester City, en hann skoraði sigurmark liðsins gegn Everton í gær. Iheanacho hefur ekki átt fast sæti í liði Leicester á tímabilinu en talið er ólíklegt að félagið sé tilbúið að láta hann fara á láni í janúar á meðan Liverpool vill lána Brewster.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert