Símtalið sem Eiður fékk frá José Mourinho

Eiður Smári Guðjohnsen, Frank Lampard, José Mourinho og John Terry …
Eiður Smári Guðjohnsen, Frank Lampard, José Mourinho og John Terry fagna enska meistaratitlinum. Ljósmynd/Chelsea

Eiður Smári Guðjohnsen segir að José Mourinho hafi haft gríðarleg áhrif sem knattspyrnustjóri Chelsea frá fyrsta degi og leikmenn liðsins hefðu strax skynjað að þeir yrðu enskir meistarar.

Eiður segir frá þessu í hlaðvarpsþætti hjá Sky Sports sem áður hefur verið vitnað til en þar ræddu hann og Jimmy Floyd Hasselbaink, félagi hans í framlínu Chelsea á fyrstu árum aldarinnar, vítt og breitt um dvöl sína hjá Lundúnaliðinu.

Mourinho tók við Chelsea sumarið 2004 af Claudio Ranieri og liðið varð enskur meistari næstu tvö ár á eftir.

Eiður kveðst hafa verið heima á Íslandi í sumarfríi að fá sér bjór með félögum sínum þegar hann fékk símtal frá Mourinho. 

„Þetta er nýi stjórinn þinn. Ef þú efast eitthvað um næsta tímabil þá ætla ég að segja þér hér og nú að þú verður áfram með Chelsea næsta árið. Þú munt spila, ég þarf bara að fá allt þitt besta frá þér,“ segir að Eiður að Mourinho hafi sagt í þessu símtali.

„Ég kláraði bjórinn og lét gott heita. Þetta var það sem ég þurfti frá stjóranum. Ég fékk aldrei svona traust frá Ranieri og upplifði í fyrsta sinn að ég væri með stjóra sem virkilega hefði trú á mér,“ sagði Eiður.

„Á fyrsta liðsfundinum horfðum við hver á annan og sögðum að við myndum vinna deildina. José var svo sannfærandi að ég trúði honum frá fyrstu sekúndu,“ sagði Eiður og segir að Mourinho hafi haft mest áhrif allra á sig, meiri en Pep Guardiola þótt Eiður hafi leikið hjá honum í þrjú ár hjá Barcelona og unnið alla titla.

„Það var bara þannig að við José smullum algjörlega saman. Það var ekkert slæmt á milli mín og Pep,“ sagði Eiður.

Hasselbaink fékk hins vegar ekki símtal frá Mourinho, heldur frá Peter Kenyon, framkvæmdastjóra félagsins. „Þannig er fótboltinn. Þegar félagið vill hafa þig þá hringir stjórinn, ef félagið vill ekki hafa þig þá hringir framkvæmdastjórinn. Ég talaði aldrei við José, hitti hann aldrei,“ sagði Hasselbaink sem fór frá Chelsea til Middlesbrough og Didier Drogba og Mataeja Kezman komu í staðinn.

Þátturinn er einnig aðgengilegur á Youtube: https://www.youtube.com/watch?v=oTFOGxSL8cc&feature=youtu.be

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert