Stjóri - ég verð hérna lengur en þú

Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Chelsea.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Chelsea. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Eiður Smári Guðjohnsen og Jimmy Floyd Hasselbaink, framherjapar Chelsea á fyrstu árum þessarar aldar, komu víða við í hlaðvarpsþætti hjá Sky Sports sem áður var vitnað til og ræddu meðal annars samskipti sín við ítalska knattspyrnustjórann Claudio Ranieri.

Þegar Roman Abramovich keypti Chelsea sumarið 2003 var ljóst að miklar breytingar myndu eiga sér stað með öllu því fjármagni sem hann kom með inn í félagið.

Ranieri hafði verið stjóri liðsins frá árinu 2000 og þeir Eiður og Hasselbaink höfðu náð afar vel saman í framlínu Chelsea og raðað inn mörkum.

„Ég vissi ekkert um Roman Abramovic,“ sagði Hasselbaink. „Ranieri sagði bara við mig að hann ætlaði að gera liðið að meisturum og margt brjálæðislegt myndi gerast.“

Eiður bætti við: „Við áttuðum okkur á því að við myndum vera undir miklli pressu í hverjum leik frá þeim degi því hann myndi kaupa hvern þann leikmann sem mögulegt væri að fá. Hann gæti keypt enska meistaratitilinn.“

Ranieri kallaði þá Eið og Hasselbaink til fundar við sig vegna nýja eigandans: „Hann sagði við mig: Jim, ég ætla að kaupa tvo framherja og það verður mjög erfitt fyrir þig að fá spiltíma. Ég svaraði bara: Allt í lagi „Mister“, við kölluðum hann það alltaf, þú getur keypt hvern sem þú vilt því ég mun alltaf komast í liðið að lokum. Gerðu það sem þú þarft og það verður allt í fína með mig,“ sagði Hasselbaink. 

Eiður kvaðst hafa svarað honum af enn meiri hreinskilni þegar Ranieri sagði honum að hann mætti búast við því að spila minna en áður: „Ég sagði við hann: Allt í lagi stjóri, ég held að ég muni verða lengur hjá félaginu en þú — það var engin lygi,“ sagði Eiður Smári.

„Hann varð að éta þetta allt ofan í sig,“ sagði Hasselbaink en Ranieri var sagt upp störfum sumarið 2004 og José Mourinho ráðinn í staðinn. Eiður og Hasselbaink voru áfram aðalframherjar liðsins síðasta tímabil Ranieris, enda þótt Adrian Mutu og Hernan Crespo hefðu verið keyptir til að taka við af þeim.

mbl.is