Vill snúa aftur í ensku úrvalsdeildina

Mauricio Pochettino tók við Tottenham árið 2014 og stýrði liðinu …
Mauricio Pochettino tók við Tottenham árið 2014 og stýrði liðinu fram í nóvember 2019. AFP

Argentínski knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino er opinn fyrir því að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina og er hann jafnvel klár í að taka við liði sem er ekki á meðal sex efstu liðanna á þessum tímapunkti. 

Pochettino stýrði síðast Tottenham, en var rekinn í nóvember. Hefur hann verið orðaður við Newcastle að undanförnu og þá var hann orðaður við Manchester United áður en Ole Gunnar Solskjær tók við. 

„Ég elska England og ég vil búa áfram í London, en á sama tíma er ég opinn fyrir öðrum löndum. Við sjáum hvað gerist,“ sagði Pochettino í viðtali við Sky. 

„Ég og teymið mitt erum miklu betri núna en við vorum. Við höfum lært mikið og félög treysta okkur vonandi,“ sagði Pochettino áður en talið barst að liðum fyrir neðan efstu sex sætin í ensku úrvalsdeildinni. 

„Hvaða lið eru efstu sex? Það er alltaf að breytast. Öll félög vilja komast í efstu sætin og þú verður að bera virðingu fyrir því. Ég er opinn fyrir öllu,“ sagði Argentínumaðurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert