Snjall eða sterkur?

Romelu Lukaku, sóknarmaður Inter, er meðal þeirra sem hafa vakið …
Romelu Lukaku, sóknarmaður Inter, er meðal þeirra sem hafa vakið athygli á því hvernig sparkspekingar tala með ólíkum hætti um hvíta og svarta leikmenn. Rannsóknin rennir stoðum undir orð hans. AFP

Rannókn á vegum RunRepeat, sem samband leikmanna í ensku úrvalsdeildinni (PFA) birti í gær, sýnir að áberandi munur er á orðalagi íþróttalýsenda eftir kynþætti leikmanna.

Rannsóknin beindist að þáttum sem leikmenn hafa lengi kvartað undan, því að hvítum leikmönum sé mun oftar hrósað fyrir snilli, leiðtogahæfileika, fjölhæfni og aðra mannkosti en að sama skapi sé svörtum leikmönnum álasað fyrir að skorta þessa kosti. Rannsóknin leiddi í ljós að þessi gagnrýni var ekki á sandi byggð. Leikmannasamtökin rannsökuðu yfir 2.000 ummæli frá lýsendum, sem fjölluðu um 643 leikmenn í efstu deildum Ítalíu, Spánar, Englands og Frakklands. Þess í stað voru svartir leikmenn fjórum sinnum líklegri til að vera hrósað fyrir styrk og sjöfalt líklegri til að fá hrós fyrir hraða.

Ekki slagsíða í beinni atvikalýsingu

Rannsóknin sýndi fram á ekki væri munur á lýsendum leikja meðan á leik stendur. Lýsendur hrósuðu og gagnrýndu til jafns hvíta og hörundsdökka leikmenn og ekki væri slagsíða þegar beinni atburðarás væri lýst. Slagsíðan kæmi hins vegar fram þegar leikmenn væru ræddir á almennum nótum. Þannig væri hvítum leikmönnum frekar hrósað fyrir gæði og getu þeirra til að taka að sér mismunandi hlutverk á vellinum en einblínt væri á líkamlegan styrk þeirra svörtu.

„Lýsendur hjálpa til við að móta almenningsálit á leikmönnum og geta aukið á rasískan bjaga sem áhorfendur eru haldnir,“ segir Jason Lee, sem fer fyrir jafnréttismálum hjá leikmannasamtökunum. „Það er mikilvægt að hafa í huga hve langt slíkt viðhorf getur náð og hvernig það hefur áhrif á fótboltamenn jafnvel eftir að þeir hætta að spila.“

Þetta er ekki fyrsta rannsókn sinnar tegundar, en viðhorf sparkspekinga til leikmanna af ólíkum kynþáttum hefur til að mynda verið rannsakað innan ameríska háskólaboltans árið 2005.

Þá hefur Romelu Lukaku, leikmaður Inter á Ítalíu, vakið athygli á því sem hann kallar „hraða- og kraftsþátturinn“ (e. pace and power element). „Það snýst aldrei um snilli mína þegar ég er borinn saman við aðra sóknarmenn. Ég er góður einn-á-einn og get komist fram hjá leikmönnum. En ég man eftir ummælum frá blaðamanni sem sagði að United ætti ekki að fá Lukaku til lðsins því hann vær ekki „snjall“ leikmaður. Það særði,“ sagði Lukaku í viðtali í fyrra.

Paul Pogba krýpur á kné í leik Manchester United og …
Paul Pogba krýpur á kné í leik Manchester United og Brighton í gær. AFP

86 af 92 þjálfurum hvítir karlmenn

Leikmenn í efstu deildum Evrópu hafa síðustu vikur, frá því boltinn fór að rúlla á ný, lagt lóð sín á vogarskálar í báráttunni gegn kynþáttamisrétti. Leikmenn í ensku deildinni hafa klæðst búningum með áletruninni Black Lives Matter auk þess sem leikmenn hafa kropið á hné í upphafi leiks til minningar um George Floyd, sem drepinn var í haldi lögreglu í Minnesota í maí, auk þess að feta þannig í fótspor leikstjórnandans Colin Kapernick úr bandarísku NFL-deildinni sem tók upp á því árið 2016 við misjafnar undirtektir.

Í gær kynntu leikmannasamtökin, enska úrvalsdeildin og B/C/D-deildirnar (English Football League) nýja áætlun sem miðar að því að auka fjölda svartra og fólks af öðrum minnihlutahópum sem hefja þjálfun að ferli loknum, en samkvæmt nýlegri úttekt BBC eru aðeins sex af 92 þjálfurum í efstu fjórum deildum á Bretlandi ekki hvítir karlmenn.

„Leikmannasamtökin eru stolt af því að styðja fjölbreyttan hóp fólks á vellinum og við erum staðráðin í að tryggja að það leiði af sér sýnileika fólks úr minnihlutahópum á öllum öðrum sviðum knattspyrnunnar,“ sagði Gordon Taylor, framkvæmdastjóri leikmannasamtakanna, af því tilefni.

Frétt NY Times.

mbl.is