Gagnrýnir fimm leikmenn Liverpool

Það gengur ekkert upp hjá Roberto Firmino og liðsfélögum hans …
Það gengur ekkert upp hjá Roberto Firmino og liðsfélögum hans í Liverpool þessa dagana. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, var ekki hrifinn af spilamennsku Liverpool gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í gær og gagnrýndi nokkra leikmenn liðsins.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Burnley en það var Ashley Barnes sem skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.

Þetta var fjórði deildarleikur Liverpool í röð þar sem liðinu tekst ekki að skora og þá var þetta fyrsta tap liðsins á heimavelli síðan í apríl 2017.

„Það er orðið ansi langt síðan maður sá Liverpool-lið svona langt frá sínu besta,“ sagði Carragher í samtali við Sky Sports þar sem hann starfar í dag.

„Fremstu þrír leikmenn liðsins eru ekki svipur hjá sjón og sömu sögu er að segja um bakverði liðsins.

Þetta snýst ekki bara um þá staðreynd að þeir séu ekki að skora mörk. Þeir eru að taka rangar ákvarðanir eins og Mohamed Salah sem ætlaði í gegnum varnarmenn Burnley nokkrum sinnum í leiknum.

Stuðningsmenn Liverpool eru mjög pirraðir á genginu því spilamennskan er hrein og klár hörmung þessa dagana,“ bætti Carragher við.

mbl.is