Ranieri tekinn við Watford

Claudio Ranieri er hann stýrði Fulham fyrir nokkrum árum.
Claudio Ranieri er hann stýrði Fulham fyrir nokkrum árum. AFP

Ítalinn Claudio Ranieri hefur verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri enska félagsins Watford. Hann er fjórtándi stjórinn sem tekur við stjórnartaumunum hjá félaginu frá árinu 2012.

Spánverjinn Xisco Munoz var rekinn í gær eftir aðeins sjö umferðir í ensku úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að nýliðar Watford séu í 14. sæti hennar, fjórum stigum frá fallsæti.

Ranieri er 69 ára gamall og hefur áður þjálfað í deildinni, fyrst sem stjóri Chelsea í upphafi aldarinnar og síðar sem stjóri Leicester City, sem hann leiddi til ótrúlegs ensks meistaratitils árið 2016.

Hann tók svo við Fulham um skeið árið 2018 og snýr nú enn á ný til Englands.

Ranieri á að baki 35 ára þjálfaraferil og utan Englands hefur hann stýrt fjölda stórliða á borð við Juventus, Internazionale, Roma, Napoli í heimalandinu og Atlético Madríd og Valencia á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert