Tottenham nálgast fjórða sætið – Bamford bjargaði stigi

Son Heung-Min fagnar marki sínu í dag.
Son Heung-Min fagnar marki sínu í dag. AFP

Tottenham Hotspur átti ekki í neinum vandræðum með nýliða Norwich City þegar liðin mættust í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Patrick Bamford sneri þá aftur í lið Leeds og bjargaði stigi á ögurstundu.

Í leik Tottenham og Norwich kom Lucas Moura heimamönnum yfir strax á 10. mínútu með glæsilegu skoti fyrir utan teig, sem hafnaði uppi í samskeytunum.

Um miðjan síðari hálfleikinn tvöfaldaði Davinson Sánchez forystu Tottenham. Hann skoraði þá af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu Son Heung-Min.

Son var svo sjálfur á skotskónum á 77. mínútu þegar hann stýrði sendingu Ben Davies í netið.

Staðan orðin 3:0 og reyndust það lokatölur.

Tottenham fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar þar sem liðið er með 25 stig, tveimur stigum á eftir West Ham United í fjórða sætinu, auk þess sem Tottenham á leik til góða.

Norwich er hins vegar á botni deildarinnar með 10 stig.

Leeds tók þá á móti Brentford. Leeds náði forystunni eftir tæplega hálftíma leik þegar Tyler Roberts skoraði eftir fyrirgjöf Raphinha.

Heimamenn í Leeds voru með eins marks forystu í hálfleik en snemma í þeim síðari jafnaði Shandon Baptiste metin fyrir Brentford.

Skömmu síðar, eftir rétt rúmlega klukkutíma leik, kom Sergi Canós gestunum yfir. Hann slapp þá í gegn eftir sendingu Bryan Mbeumo og kláraði snyrtilega framhjá Illan Meslier í marki Leeds.

Allt virtist stefna í sterkan endurkomusigur en Bamford, sem kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik eftir að hafa verið frá vegna meiðsla að undanförnu, jafnaði metin fyrir Leeds á fimmtu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.

2:2 urðu því lokatölur í æsispennandi leik.

Brentford er eftir leikinn með 17 stig í 11. sæti og Leeds er skammt undan með 16 stig í 14. sæti.

mbl.is