Liðsfélagi Arnórs kominn til Arsenal

Matt Turner er orðinn leikmaður Arsenal.
Matt Turner er orðinn leikmaður Arsenal. AFP

Enska knattspyrnufélagið Arsenal gekk í dag formlega frá kaupum á bandaríska landsliðsmarkverðinum Matt Turner frá New England Revolution.

Strax í febrúar á þessu ári var frágengið að Turner myndi koma til enska félagsins í sumar en hann hefur leikið með New England í sex ár og verið þar liðsfélagi Arnórs Ingva Traustasonar í hálft annað ár.

Turner er 28 ára gamall og á að baki 18 A-landsleiki fyrir Bandaríkin og var í hópnum sem tryggði sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Katar í lok þessa árs.

„Matt er reyndur markvörður sem mun auka gæðin í okkar hópi. Hann hefur sýnt á undanförnum árum, bæði í MLS-deildinni og með bandaríska landsliðinu að hann er með reynslu og styrk sem kemur okkur til góða næstu árin," sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, á heimasíðu félagsins í dag.

Hjá Arsenal mun Turner berjast við Aaron Ramsdale um markvarðarstöðuna en Þjóðverjinn Bernd Leno og Rúnar Alex Rúnarsson, sem hefur verið í láni hjá OH Leuven í Belgíu, eru væntanlega á förum frá félaginu.

mbl.is