Arsenal aftur á toppinn

Arsenal-menn fagna sigurmarkinu.
Arsenal-menn fagna sigurmarkinu. AFP/Paul Ellis

Manchester United og Arsenal mættust á Old Trafford í 37. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Leikar enduðu 1:0 fyrir Arsenal sem þýðir að liðið er komið aftur á toppinn með 86 stig. Manchester United situr ennþá í 8. sæti með 54 stig. 

Leikurinn byrjaði tiltölulega rólega og var United aðeins meira með boltann fyrstu mínúturnar. Á 20. mínútu fékk Havertz boltann aleinn á hægri kantinum eftir að hafa verið spilaður réttstæður af Casemiro í vörn United-manna. Havertz keyrði inn á teig United og fann Trossard í markteignum sem kláraði í fyrsta framhjá Onana í marki United, 1:0 fyrir Arsenal. 

Manchester United var áfram meira með boltann en vörn Arsenal-manna var þétt og náðu United-menn ekki að skapa sér hættuleg færi þrátt fyrir nokkrar álitlegar sóknir. Staðan í hálfleik, 1:0 fyrir Arsenal. 

Síðari hálfleikurinn byrjaði rólega, Arsenal var meira með boltann en sköpuðu sér engin færi. United náði síðan ágætis kafla en Arsenal-menn voru þéttir og vörðust vel. Á 79. mínútu fékk Martinelli besta færi seinni hálfleiksins en skot hans var frábærlega varið af Onana. 

United pressuðu Arsenal síðustu mínúturnar án þess að skapa sér dauðafæri. Lokaniðurstaða, 1:0 fyrir Arsenal, gífurlega mikilvæg þrjú stig í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. 

Man. United 0:1 Arsenal opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert