Vill snúa aftur eftir eins árs fjarveru

Jay Won, einnig þekktur sem Sinatraa.
Jay Won, einnig þekktur sem Sinatraa. Grafík/Activision Blizzard

Fyrrum liðsmaður Sentinels, Jay Won „Sinatraa“, opinberaði á Twitter að hann væri nú tilbúinn að snúa aftur í keppnissenu Valorant eftir eins árs fjarveru.

Sinatraa hlaut sex mánaða keppnisbann á síðasta ári í kjölfar ásakana um kynferðisofbeldi af fyrrverandi kærustu hans, Cleo Hernandez.

Sex mánaða bann fyrir ósamvinnuþýði

Rannsókn hófst á málinu þegar að Hernendez birti níu blaðsíðna skjal á netinu þar sem hún lýsti upplifun sinni á meðan sambandinu stóð og ásakaði hann um kynferðisofbeldi. Vegna ósamvinnuþýði við Riot Games í tengslum við rannsóknina ákvað Riot að leggja á hann sex mánaða keppnisbann.

Banninu var aflétt í september en Sinatraa hefur síðan þá beint athygli sinni og tíma að streymum og því ekki tekið þátt í neinun atvinnukeppnum, fyrr en nú.

Sinatraa segist vera tilbúinn að snúa aftur í keppnissenu og mun fara í prufur í vikunni.

Lært margt um sjálfan sig og þroskast

„Það er komið ár síðan ég var neyddur til þess að stíga til hliðar frá keppnissenunni. Á þeim tíma, hef ég fengið að læra margt um sjálfan mig og fengið að þroskast sem manneskja. Ég er núna tilbúinn til þess að snúa aftur í keppnissenuna og mun byrja í prufum í þessarri viku,“ segir Sinatraa í tísti.

Í framhaldi svarar Sinatraa, aðspurður hvaða lið yrði hans fyrsta val til að fá inngöngu í, að hann myndi helst vilja snúa aftur í sitt gamla lið, Sentinels.

Sló í gegn í Overwatch

Sinatraa er ekki nema 22 ára gamall í dag en hlaut mikla viðurkenningu og fór að verða þekktur í rafíþróttum árið 2019, þegar hann vann Overwatch League tímabil með Overwatch liðinu San Frasisco Shock.

Á því tímabili var hann titlaður sem verðmætasti leikmaðurinn og einnig verðmætasti leikmaðurinn í heimsmeistaramótinu - sem hann sigraði með bandaríska liðinu.

Í apríl árið 2020 skipti hann úr Overwatch yfir í Valorant og fór að spila með norður-ameríska liðinu Sentinels. Liðið hefur síðan þá orðið eitt af sigurstrangasta liðinu á sínu svæði og jafnframt sigraði fyrsta alþjóðlega stórmót leiksins, VCT Masters Reykjavík á síðasta ári.

Lánsmaðurinn engu síðri

En Sinatraa var í keppnisbanni og missti því af mótinu, en leikmaðurinn Tyson Ngo „TenZ“ kom í hans stað sem lánsmaður frá Cloud9.

Lánsmaðurinn TenZ var kosinn verðmætasti leikmaður mótsins í Laugardalshöllinni og var í beinu framhaldi keyptur til liðsins fyrir 150 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert