Bel'Veth mætir til leiks

Uppfærsla 12.11 í tölvuleiknum League of Legends frá Riot Games færir leikmönnum 160. hetju leiksins, Keisaraynju Tómsins, Bel'Veth, ásamt breytingum á öðrum hetjum.

Uppfærsluatriðin hafa nú þegar verið birt og verður Bel'Veth spilanleg á morgun.

Breytingar á hetjum

Bel'Veth er Junler-hetja frá Tóminu sem býr að snöggum árásum og getur þar fyrir utan umbreytt sér og sýnt sitt sanna andlit.

Það eykur heildarlíf hennar og hraða, og gerir henni jafnvel kleift að ferðast í gegnum veggi með því að nota Void Surge-hæfileikann sinn.

Fleiri atriði tekin fyrir

Uppfærslan snýr þó ekki aðeins að Bel'Veth, heldur hljóta 27 aðrar hetjur breytingar og þar af fá fimmtán hetjur buff. Auk þess fer Ocean Song-búningalínan af stað og verða fjórir slíkir búningar aðgengilegir ásamt nýjum krómum (e. chromas) fyrir sex hetjur.

„Í þetta skiptið erum við að fara yfir hverja hetju fyrir sig og skila heilunar- og varnarkröftum þangað sem þörf er á, eða endurfjárfesta þeim glataða krafti í gegnum aðra eiginleika þeirra hetja,“ segir um breytingar annarra hetja í uppfærsluatriðum.

Uppfærsluatriðin má lesa í heild sinni hér á heimasíðu League of Legends.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert