Stór dagur í Ljósleiðaradeildinni

Ljósleiðaradeildin í CS:GO.
Ljósleiðaradeildin í CS:GO. Grafík/Rafíþróttasamtök Íslands

Sjöunda umferð Ljósleiðaradeildarinnar er í fullum gangi og eru þrír leikir á dagskrá í kvöld. Staðan í deildinni er hnífjöfn og langt síðan toppbaráttan hefur verið svo jöfn.

Leikir kvöldsins eru LAVA gegn Ármanni, Ten5ion gegn Þór og Fylkir gegn Viðstöðu.

Dagskrá kvöldsins.
Dagskrá kvöldsins. Grafík/Rafíþróttasamtök Íslands.

LAVA og Ármann

Fyrsti leikurinn í kvöld byrjar klukkan 19.30 og takast þar á tvö lið sem þurfa sigur. Bæði liðin eru skipuð leikmönnum sem eru hoknir af reynslu í Counter-Strike og því verður gaman að fylgjast með leiknum í kvöld og erfitt að spá fyrir um það hvort liðið mun bera sigur úr býtum. 

LAVA er í fjórða sæti Ljósleiðaradeildarinnar en Ármann í því sjötta. Einungis tvö stig skilja liðin að og því getur Ármann jafnað LAVA að stigum með sigri í kvöld.

Ten5ion og Þór

Annar leikur kvöldsins er svo Ten5ion gegn Þór og er á dagskrá klukkan 20.30. Ten5ion er ennþá að leita að sínum fyrstu stigum í deildinni og þurfa sigur til þess að koma sér upp úr fallsætinu. Andstæðingar kvöldsins eru þó ekki af verri endanum en Þór getur með sigri tryggt sér fyrsta sæti deildarinnar eftir sjö umferðir. 

Toppbaráttan er jöfn og verður spennandi að sjá hvort Þór takist að ná fyrsta sætinu í kvöld.

Fylkir og Viðstöðu

Þriðji og síðasti leikur kvöldsins er klukkan 21.30 í kvöld og mætast þar liðin í áttunda og níunda sæti deildarinnar. Leikurinn er mikilvægur fyrir bæði lið því bæði liðin reyna að komast upp töfluna til þess að sleppa við það að fara í umspil um sæti í efstu deild.

Liðin hafa bæði sýnt góða takta þrátt fyrir að hafa ekki náð að hala inn mörgum stigum og því er búist við hörkuslag í kvöld. Viðstöðu situr í áttunda sæti og Fylkir í því níunda.

Ljósleiðaradeildin verður í beinni á Stöð 2 Esport og Twitch rás rafíþróttasamtaka Íslands frá klukkan 19.15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert