Keyrt um heiminn frá Íslandi

F1 Esports.
F1 Esports. Grafík/FIA

FIA Formula One Esports, rafíþróttadeild Formúlunnar, var stofnuð árið 2017 þar sem vinsældir Formúlunnar fóru vaxandi og tölvuleikur F1 orðinn vinsæll.

Um 60.000 spilarar tóku þátt fyrsta árið þar sem var verið að meta og prófa hvernig deildin kæmi út ásamt því að finna þá sem væru bestir í leiknum.

Á samningum hjá Formúluliðum

Ári síðar var búið að móta deild með 20 ökuþórum sem allir eru samningsbundnir formúluliðum og keppa fyrir þau í heimsmeistaramóti formúlunnar.

Liðin hafa heitið því að sjá vel um sína leikmenn og til dæmis má nefna að Mercedes Benz er með akademíu þar sem ökuhermar og kraftmikill búnaður er í boði fyrir þeirra leikmenn.

Mercedes er með einn hraðasta F1-spilara heims en sá heitir Jarno Opmeer er hollenskur F1-spilari og er tvöfaldur heimsmeistari í leiknum.

Jarno Opmeer er tvöfaldur heimsmeistari.
Jarno Opmeer er tvöfaldur heimsmeistari. Skjáskot/F1

Keyrt um brautir heimsins frá Íslandi

Keppt er vikulega í Formúlu 1 Esports á Íslandi og eru um 38 keppendur skráðir í efstu tvær deildirnar.

20 manns eru skráðir í Úrvalsdeildina sem er hámarkið þar sem einungis eru tíu lið í boði, með tvo ökuþóra í hverju liði.

Gott utanumhald er í deildunum tveimur, Úrvalsdeildinni og 1.deild, þar sem dómnefnd fer yfir allar keppnir og staðfestir úrslitin og geta ökumenn einnig kært niðurstöður eins og gengur og gerist í Formúlu 1.

Tvöfaldur meistari

Grímur er 23 ára og tvöfaldur meistari í F1 Esports. Hann vann báða meistaratitlana áður en deildin var sameinuð í eina, óháð því á hvernig tölvu er spilað. Grímur keyrir fyrir Alfa Romeo (Sauber) í Úrvalsdeildinni sem hann segir vera uppáhaldsliðið sitt.

Liðsskrá íslensku Úrvalsdeildarinnar.
Liðsskrá íslensku Úrvalsdeildarinnar. Grafík/Úrvalsdeildin

Hefur fylgst með formúlunni frá unga aldri

„Ég byrja fylgjast með F1 þegar ég var tveggja ára og hef verið „hooked“ síðan. Ég byrjaði að spila F1 2018,” segir Grímur í samtali við mbl.is.

Grímur segir það skemmtilegasta við leikinn sé að keyra bílana, enda hefur hann alltaf haft áhuga á bílum og finnst gaman að keyra þá.

Hvernig er hefðbundinn keppnisdagur hjá þér?

„Race day er mjög hefðbundinn, ég geri ekkert öðruvísi miðað við alla aðra daga, ég fer bara í gegnum daginn eins og vanalega og síðan hendi ég mér í leikinn svona 30-60 mínútur fyrir keppni.”

Eftir tvær keppnir á þessu tímabili situr leikmaður að nafni Fusupreme í fyrsta sæti og eru þrettán æsispennandi keppnir eftir.

Úrvalsdeildin á Íslandi er sýnd á Stöð 2 Esports og er keppt annan hvern fimmtudag klukkan 20.30. Fyrsta deildin keppir hina fimmtudagana á sama tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert