Pýramídaleikurinn hennar Erlu kominn á Steam

Erla Óskarsdóttir og félagar hlóðu tölvuleiknum The Pyramid of Bones inn á leikjaveituna Steam, en leikurinn var skapaður fyrir um ári síðan og gefinn út á Valentínusardaginn, 14. febrúar síðastliðinn.

Leikurinn The Pyramid of Bones er gjaldfrjáls og hentar vel til þess að spila í samvinnu með öðrum, en nú þegar er leikurinn búinn að fá góða dóma.

Lifað af innan veggja pýramídans

„The Pyramid of Bones gerist í pýramída, þitt helsta markmið í leiknum er að lifa eins lengi á móti múmíum sem reyna að taka þig niður. Það eru nokkrar tegundir af múmíum sem verða erfiðari og erfiðari, hver með sérstaka eiginleika og veikleika,“ segir Erla í samtali við mbl.is um leikinn.

„Þú safnar stigum með því að halda þér á lífi og finna fornmuni. Þú getur alltaf yfirgefið pýrmídann og með því færð þú að halda þínum stigum. Ef þú drepst að þá missir þú stigin og tapar. Þú hefur einnig þann valkost að spila með vinum. Þið hafið þá tækifæri að vinna saman og lífga hvorn annan við ef þess þarf. Ef allir drepast að þá er leikurinn búinn,“ segir Erla.

Skólaverkefnið fór á Steam

Fyrir um ári síðan þegar fjallað var um tölvuleikinn Wake World, sem Erla og Hrafnkell Þorri eru að vinna í, var einmitt minnst á þennan leik. Hann var þá aðgengilegur til spilunar í gegnum þennan hlekk

Leikurinn var upphaflega skapaður sem skólaverkefni sem Erla og Hrafnkell gerðu ásamt tveimur öðrum og voru þau ekki nema tvær til þrjár vikur að klára hann.

Erla Óskarsdóttir og Hrafnkell Þorri.
Erla Óskarsdóttir og Hrafnkell Þorri. mbl/Eggert Jóhannesson

Hitað upp fyrir Waking World

Erla og Hrafnkell eru nú farin að gefa út leiki undir nafninu Pretty Potato Games og heitir Steam-aðgangur þeirra eftir því.

Þau hlóðu pýramídaleiknum upp í þeim tilgangi að hita upp Wake World þar sem hann verður mikið stærri, en þannig er líklegra að fleiri sjái Wake World þegar hann kemur út.

Wake World verður mikið stærri leikur og gerist í opnum heimi en stefnt er að því að taka þátt í Steam Next Fest í sumar og bjóða þá upp á að spila prufuútgáfu af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert