Verstappen vill V10-vélar

Framtíðarvélar formúlunnar er mál sem nú er rætt á vettvangi formúlunnar. Sitt sýnist hverjum en Max Verstappen hefur á hreinu hvað hann vill. Þegar núverandi reglur renna út 2020 vill hann sjá háværar V10-vélar aftur í bílunum.

Hinn 19 ára ökumaður Red Bull var ekki hár í loftinu þegar hætt var að brúka v10-vélarnar en þær runnu sitt skeið árið 2005. Við tóku V8-vélar en þeim var svo skipt út fyrir V6-vélar með forþjöppu og nokkurs konar tvinnaflrás árið 2014. 

Þessar síðustu vélar hafa ekkert gert annað en valda vonbrigðum, ekki bara meðal áhorfenda heldur ökumanna og liðanna einnig. Þeim er það einna helst fundið til foráttu að vera ekki nógu háværar.

Ólíklegt þykir að V10-vélarnar snúi aftur vegna kröfu um að þróun og hönnun keppnisvéla formúlubílanna skili sér í venjulega fólksbíla í nýrri og vistvænni vélatækni.

„Það væri gaman að fá V10-vélarnar eða eitthvað álíka aftur með dásamlegu vélarhljóði,“ segir Verstappen við vikuritið Autosport. „Núverandi vélar eru ágætar en ég held áhorfendum þyki þær ekki tilkomumiklar, í samanburði við V10 eða V12 vélar,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert