Paul Ricard öðrum til viðmiðunar

Ný lega Paul Ricard-brautarinnar verður ökumönnum formúlu-1 „virkileg viðmiðun“ er þeir spreyta sig í henni á franska kappakstrinum á næsta ári.

Þetta segir franski ökumaðurinn og fyrrverandi Ferrariþórinn Jean Alesi en nú hefur keppnisbrautin verið ákveðin fyrir formúlukappaksturinn 24. júní næsta sumar.

Vangaveltur hafa verið um hvort lengsti beini kafli brautarinnar, Mistral-brautarkaflinn, yrði óbreyttur, en það hefði þýtt að ökumenn hefðu komið á 350 km/klst hraða inn að Signes-beygjunni. 

Ákveðið hefur hins vegar verið að bæta hlekkbeygju inn í kaflann hálfa leið niður hann. Þrátt fyrir það er áætlað að bílarnir komi á um 344 km/klst hraða að þessum hlykk en talið er að þar muni gefast tækifæri til framúrtöku.

Alesi segir það litlu breyta og brautin verði eftir sem áður höfð til viðmiðunar því í henni sé að finna allar mögulegar gerðir af beygjum. „Ég er sannfærður um að ökumenn munu skemmta sér heilmikið í brautinni, segir Alesi.

Keppnishringurinn er 5,8 kílómetrar. Miðasala á kappaksturinn hefst um miðjan nóvember. Búist er við mikilli aðsókn en til marks um áhuga frakka á formúlunni leggja um 20.000 þeirra land undir fót og fer á Spánarkappaksturinn í Barcelona ár hvert. Með að minnsta kosti tvo franska ökumanna meðal keppenda verður áhugi á kappakstrinum í Le Castellet eflaust mikill.

mbl.is