Dekkjaval McLaren djarfast

Djarfasta dekkjavalið fyrir kappaksturinn í Barein annan sunnudag skrifast á McLarenliðið, að sögn Pirellifyrirtækisins sem leggur öllum liðum formúlunnar til keppnisdekk.

Ekkert annað lið fer sömuleið en þeir Stoffel Vandoorne og Fernando Alonso  hafa hvor um sig óskað eftir níu settum af ofurmjúkum dekkjum. Þeir verða svo með eitt sett af meðalhörðum dekkjum (hvítum) hvor og þrjú af millimjúkum (gulum).

Val toppliðanna þriggja, Mercedes, Ferrari og Red Bull,  fyrir Barein er þann veg að ökumenn þeirra fá sjö sett af ofurmjúku dekkjunum (hinum rauðu) hver. Hið sama er að segja um ökumenn Williams, Toro Rosso og Sauber.
 
Hið eina sem greinir toppliðin að er að ökumenn Mercedes fá mismunandi fjölda hvítra og gulra dekkja, svo sem sjá má á meðfylgjandi töflumynd. Hin hvítu verða tekin í notkun í fyrsta sinn í næsta móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert