Ætla sér allt að fimm ár að ná toppnum

Fernando Alonso á McLarenbílnum í lokamóti ársins 2018, í Abu …
Fernando Alonso á McLarenbílnum í lokamóti ársins 2018, í Abu Dhabi. AFP

Stjórnandi McLarenliðsins, Zak Brown, segir liðið vinna eftir áætlun sem miði að því að það verði afturkomið í keppnina um toppsæti formúlu-1 innan fimm ára.

Eftir að hafa verið eitt sigursælasta lið formúlunnar árum saman dalaði McLaren. Hefur því ekki fallið mótssigur í skaut frá í Brasilíukappakstrinum árið 2012. Og frá því að eiga tvo ökumenn á palli í fyrsta móti ársins 2014, í Melbourne í Ástralíu, hafa ökumenn McLaren aldrei komist í tæri við verðlaunapallinn síðan.

Eftir hörmungartíma 2015 til 2017 með Hondavélar í skottinu sneri McLaren sér til Renault um vélar fyrir tímabilið 2018. Það samstarf leiddi ekki af sér öllu betri árangur á fyrsta ári.

Brown tók við liðsstjórninni af Ron Dennis undir vertíðarlok 2016. Hann segir langtímaáætlun um endurreisn æru liðsins liggja fyrir. Það kveði á um leiðina að mótssigrum og titlum  að nýju.

Brown hinn bandaríski forðast þó að spá fyrir um komandi keppnistíð. „Það er best að forðast spádóma. Okkur er ljóst að síðustu ár hafa spádómar ekki gengið eftir og við viljum ekki endurtaka þau mistök. Væntingar okkar eru að við höldum áfram að bæta okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert