„Ginhallirnar“ hverfi burt

Alonso við mótorheimili Ferrari.
Alonso við mótorheimili Ferrari. ap

Ross Brawn aðalstjórnandi formúlu-1 hefur lagt til að keppnisliðin hætti að reisa „ginhallir“ að tjaldabaki á  kappakstursmótum í Evrópu.

Á flestum mótanna í Evrópu reisa liðin stór svonefnd mótorheimili sem þykja ótvírætt tákn bruðls, óhófs og óþarfa eyðslusemi. Eru þau síðan tekin niður og flutt á keppnisbraut næsta móts. Til þeirra flutninga þarf hvert lið fjölda stórra flutningabíla.

Þessar hallir verða ekki á mótsstöðum í framtíðinni, að sögn Brawn. Forsvarsmenn keppnisliðanna hafa sett sér það markmið að gera formúlu-1 kolefnisfría fyrir 2020. Í þeirri glímu verður sérstaklega tekið á flutningaþörf íþróttarinnar.

Brawn nefnir sem dæmi að liðin geti ferðast með lestum milli keppnisbrauta og senda tæki sín og tól með sjóflutningum. Það myndi gera að engu þörfina fyrir mótorheimilin.

„Við erum að skoða flutningana og öll tækin og tólin sem við notum,“ segir Brawn við motorsport.com. „Járnbrautalestar eru þægilegur og skilvirkur flutningamáti og sjóflutningar einnig. Við kryfjum flutningamálin til að sjá hvernig við getum lágmarkað kolefnisáhrifin.“

Nico Rosberg gengur inn í mótorheimili Mercedes að tjaldabaki í …
Nico Rosberg gengur inn í mótorheimili Mercedes að tjaldabaki í Hockenheim. AFP
mbl.is