„Þakka Guði fyrir hlífðargrindina“

Bifreið Max Verstappens beint ofan á bifreið Lewis Hamiltons, sem …
Bifreið Max Verstappens beint ofan á bifreið Lewis Hamiltons, sem glittir í undir dekkinu. AFP

Aksturskappinn Lewis Hamilton er þakklátur fyrir að hafa sloppið heill á húfi eftir að keppinautur hans í Formúlu-1, Max Verstappen, keyrði á bifreið sinni yfir bifreið Hamiltons í ítalska kappakstrinum í gær.

Hlífðargrind, sem er jafnan kölluð „geislabaugur“, á Mercedes-bifreið Hamiltons kom í veg fyrir að illa færi.

„Í dag [gær] líður mér eins og ég sé mjög heppinn. Ég þakka Guði fyrir geislabauginn sem bjargaði mér og bjargaði hálsinum mínum.

Ég er svo þakklátur fyrir að vera enn hér. Það er mikil blessun að einhver hafi verið að vaka yfir mér í dag,“ sagði Hamilton við BBC.

Bifreið Verstappen, sem ekur fyrir Red Bull, skaust upp sem endaði með því að hann ók yfir bifreið Hamiltons.

„Ég held að ég hafi aldrei orðið fyrir höfuðhöggi af völdum bíls, það er svolítið áfall fyrir mig. Við tökum áhættur og það er aðeins þegar maður upplifir eitthvað svona að maður verður fyrir raunverulegu áfalli og lítur lífið með þeim augum að við erum öll svo viðkvæm.

Ef maður skoðar ljósmyndirnar af árekstrinum sést að höfuð mitt er ansi framarlega í stjórnklefanum,“ bætti Bretinn sigursæli við.

mbl.is