Heiðar tryggði Íslandi sigur á Möltu

Ólafur Jóhannesson stýrir sínum mönnum á Möltu í dag í …
Ólafur Jóhannesson stýrir sínum mönnum á Möltu í dag í 12. og síðasta landsleik ársins. mbl.is/Hákon

Ísland sigraði Möltu, 1:0, í vináttulandsleik í knattspyrnu sem fram fór á Hibernians Ground vellinum í Paola á Möltu í dag. Heiðar Helguson skoraði sigurmarkið á 66. mínútu.

Ísland fékk fyrsta færið á 5. mínútu þegar Veigar Páll Gunnarsson átti ágætt skot en markvörður Möltu varði.

Aron Einar Gunnarsson komst í ágætt færi á 13. mínútu eftir góða sókn en skaut rétt framhjá marki Möltubúa.

Heimamenn björguðu naumlega á marklínu á 24. mínútu eftir hornspyrnu Emils Hallfreðssonar.

Emil var aftur á ferð á 30. mínútu með hörkuskot úr aukaspyrnu sem markvörður Möltu varði vel.

Staðan í hálfleik var 0:0.

Ólafur Jóhannesson gerði tvær breytingar á liðinu í hálfleik. Árni Gautur Arason kom í markið í stað Gunnleifs Gunnleifssonar og Pálmi Rafn Pálmason kom inná fyrir Veigar Pál Gunnarsson.

Bæði lið vildu fá vítaspyrnu á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks. Fyrst féll Möltubúi í vítateig Íslands og síðan töldu Íslendingar að boltinn hefði farið í hönd heimamanns. Dómarinn lét leikinn halda áfram í bæði skiptin. Hann lyfti gula spjaldinu á varnarmann Möltu á 53. mínútu fyrir að brjóta á Heiðari Helgusyni, og sýndi svo Heiðari gula spjaldið fyrir að hrinda Möltubúanum.

Heiðar var tvívegis ágengur við mark Möltu á 55. mínútu. Fyrst skallaði hann rétt framhjá eftir aukaspyrnu Emils og átti síðan skot yfir markið eftir góða sókn Íslands.

Heiðar Helguson kom Íslandi yfir, 1:0, á 66. mínútu. Eftir þunga pressu að marki Möltu reyndi varnarmaður að skalla boltann til markvarðar en Heiðar komst inná milli, náði boltanum og skoraði.

Tvær breytingar voru gerðar á liði Íslands á 68. mínútu. Garðar Jóhannsson kom inná í sínum fyrsta landsleik fyrir Heiðar Helguson og Davíð Þór Viðarsson kom inná fyrir Aron Einar Gunnarsson.

Bjarni Ólafur Eiríksson kom inná fyrir Indriða Sigurðsson á 73. mínútu.

Guðmundur Steinarsson kom inná fyrir Emil Hallfreðsson á 79. mínútu.

Möltubúar fengu færi á 88. mínútu en áttu þá skalla framhjá marki Íslands eftir hornspyrnu.

Mikið gekk á í uppbótartímanum. Árni Gautur Arason varði skot úr ágætu færi, íslenska liðið geystist í sókn og Pálmi Rafn Pálmason skaut framhjá. Möltubúar sóttu hratt á móti og komust í dauðafæri en Árni Gautur varði vel, maður gegn manni.

Lið Íslands: Gunnleifur Gunnleifsson (Árni Gautur Arason 46.) - Birkir Már Sævarsson, Sölvi Geir Ottesen, Hermann Hreiðarsson, Indriði Sigurðsson (Bjarni Ólafur Eiríksson 73.) - Arnór Smárason, Aron Einar Gunnarsson (Davíð Þór Viðarsson 68.), Helgi Valur Daníelsson, Emil Hallfreðsson (Guðmundur Steinarsson 79.) - Veigar Páll Gunnarsson (Pálmi Rafn Pálmason 46.), Heiðar Helguson (Garðar Jóhannsson 68.)

Varamaður: Eggert Gunnþór Jónsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert