Erla Steina leggur skóna á hilluna

Erla Steina Arnardóttir.
Erla Steina Arnardóttir. Heiðar Kristjánsson

Erla Steina Arnardóttir, fyrrum landsliðskona í knattspyrnu, tilkynnti eftir sigur Kristianstad á Dalsjöfors í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn að hún hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Erla er 28 ára gömul og hefur leikið í hálft fimmta ár með Kristianstad. Hún hefur spilað hvern einasta leik undanfarin þrjú tímabil og á samtals 150 leiki að baki í úrvalsdeildinni. Þá lék hún eitt tímabil með Jersey Sky Blue í bandarísku atvinnudeildinni, og spilaði einnig eitt ár með Breiðabliki. Erla á 40 landsleiki að baki en gaf ekki kost á sér í landsliðið tvö síðustu árin.

„Ég er svo gömul,“ segir Erla í léttum dúr við Kristianstadsbladet. „Ég yngist ekki, allavega, og það er vissulega erfitt að yfirgefa liðið þegar það er í svona mikilli framför,“ segir Erla.

Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Kristianstad missir því tvo íslenska leikmenn úr sínu liði. Margrét Lára Viðarsdóttir, markadrottning sænsku úrvalsdeildarinnar, hefur sem kunnugt er samið við Turbine Potsdam í Þýskalandi. vs@mbl.is