Ekkert til að hafa áhyggjur af

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Golli

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, er tilbúinn í landsleikina gegn Mexíkó og Perú um og eftir næstu helgi þótt hann hafi ekki spilað með Randers gegn OB í lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Á vef Randers kom fram að Hannes hefði orðið fyrir minni háttar meiðslum. 

„Mér var gefin pása til að jafna mig endanlega eftir smá högg sem ég fékk í leiknum á undan. En þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af og ég verð til í slaginn í Bandaríkjunum,“ sagði Hannes við mbl.is í kvöld.

Hann flýgur í fyrramálið til Kaliforníu en þar leikur íslenska liðið gegn Mexíkó í Santa Clara aðfaranótt laugardagsins og síðan fer liðið til Harrison í New Jersey og mætir þar Perú aðfaranótt miðvikudags.

Hannes og félagar í Randers fara í umspil um áframhaldandi sæti í úrvalsdeildinni eftir landsleikjafríið en þar verður liðið til að byrja með í riðli með SønderjyskE (31 stig), OB (31 stig) og Lyngby (21 stig) en Randers er með 20 stig.

mbl.is