Fer Barcelona án taps í gegnum deildina?

Ernesto Valverde þjálfari Barcelona.
Ernesto Valverde þjálfari Barcelona. AFP

FC Barcelona er taplaust á toppi spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni. 

Liðið er á góðri leið með að afreka að komast taplaust í gegnum deildakeppnina. Liðið hefur ekki tapað síðustu fjörtíu deildaleikjum eða í rétt rúmlega ár því síðast tapaði liðið í deildinni 8. apríl 2017. 

Liðið mun þó ekki ná að setja stigamet fari svo að velgengni liðsins haldi áfram út tímabilið. Til þess eru jafnteflin orðin of mörg. Barcelona er með 83 stig eftir 25 sigra og 8 jafntefli. Liðið getur því náð í 98 stig ef það vinnur alla fimm leikina sem eftir eru. Stigametið er 100 stig sem risarnir Real Madrid og Barcelona deila. Sett af Real árið 2012 og jafnað af Barca árið eftir. Bæði liðin töpuðu tveimur leikjum í deildinni þau tímabil. 

Barcelona á eftir að mæta Deportivo og Levante á útivelli en á heimavelli á liðið eftir að spila við Real, Villareal og Real Sociedad. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert